Innlent

Landlæknir telur staðgöngumæðrun ranga forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Birgir Jakobsson, landlæknir.
Birgir Jakobsson, landlæknir. Vísir/Stefán
Birgir Jakobsson, landlæknir, telur að sú þjónusta sem frumvarp heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni felur í sér muni auka flækjustig og kostnað innan heilbrigðisþjónustunnar. Þetta kemur fram í umsögn embættis landlæknis um frumvarpið sem skilað var til nefndasviðs Alþingis í gær.

Að mati landlæknis er frumvarpið ekki rétt forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu í dag þar sem íslensk heilbrigðisþjónusta á við margvíslegar áskoranir að etja, eins og það er orðað í umsögninni.

Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni ótímabær

Þá bendir landlæknir á að staðgöngumæðrun sé ekki leyfð í neinu Norðurlandanna og metur hann það sem svo að sú staðreynd endurspegli flókin læknisfræði-, siðfræði-, og samfélagslegu álitaefni sem staðgöngumæðrun vekur spurningar um.

Árið 2013 lagði Geir Gunnlaugsson, þáverandi landlæknir, fram svör embættisins við spurningum frá velferðarráðuneytinu vegna álitaefna um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Þá var niðurstaða embættisins sú að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni væri ekki tímabær. Segir núverandi landlæknir að sú afstaða embættisins sé óbreytt.

Telja frumvarpið fela í sér óbeina mismunun

Auk landlæknis hafa Samtökin ´78, Barnaverndarstofa og Óháði söfnuðurinn skilað inn umsögn um frumvarpið.

Samtökin ´78 leggjast gegn frumvarpinu í nýverandi mynd þar sem þau telja að frumvarpið feli í sér óbeina mismunun gagnvart hinsegin fólki þar sem kveðið er á um það í frumvarpinu að annað væntanlegra foreldra skuli leggja til kynfrumur.

Segir í umsögn samtakanna að sumir hópar í samfélaginu, svo sem hinsegin fólk, hafi verulega takmarkaða eða enga möguleika á að ættleiða börn. Þá séu þessir hópar jafnframt líklegri en aðrir til að geta ekki lagt fram kynfrumur og benda samtökin sérstaklega á stöðu transfólks sem farið hefur í gegnum kynleiðréttingarferli. Það ferli útilokar gjarnan barneignir og framleiðslu á kynfrumum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.