Lífið

Gamlir bátar knúnir seglum og rafmagni

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Guðbjartur Ellert með verðlaunagripinn, skúlptúr úr gabbrói og lerki eftir Aðalstein Svan Sigfússon myndlistarmann.
Guðbjartur Ellert með verðlaunagripinn, skúlptúr úr gabbrói og lerki eftir Aðalstein Svan Sigfússon myndlistarmann. Mynd/Gústaf Gústafsson
„Fyrirtækið hefur verið starfandi í rétt 20 ár. Byrjaði bara með einn lítinn eikarbát og á nú átta. Þar af eru fjórar skútur. Ein þeirra, Opal, er auk þess rafmagnsdrifin og siglir hljóðlaust,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Norðursiglingar, sem tók á móti umhverfisverðlaunum Ferðamálastofu í gær.

Guðbjartur segir tæknibúnað Opal býsna flókinn, hann sé stefnumótandi og veki mikla athygli. 

„Við höfum verið með skútuna í Skandinavíu á sýningum og tekið fólk í hljóðlausar siglingar um Óslóarfjörð, við mikla hrifningu. Ferðamenn frá öðrum löndum eru líka uppteknari af þessum umhverfisvænu siglingum en flestir hér heima.“

Skýtur þá ekki skökku við að farþegar Norðursiglingar muni hafa stóriðjuna á Bakka fyrir augum þegar siglt er um hafnarkjaftinn?

„Nei, við óttumst ekki að sú starfsemi hafi neikvæð áhrif á okkar heldur höfum trú á að hægt verði að láta þetta harmonera saman.“

Siglt verður út nóvember með ferðamenn þegar veður leyfir, að sögn Guðbjarts.

„Við höfum heimsótt hvalina, vini okkar á Skjálfandaflóa, í tæp 20 ár, oft á dag, átta mánuði ársins og höfum fengið þá til að stökkva, velta sér, vinka og blása og jafnvel brosa til farþega sem telja tæpa milljón á þessum tíma.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×