Innlent

Aftur lagt til að kosningaaldur verði lækkaður

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar vilja lækka kosningaaldur í sextán ár.
Þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar vilja lækka kosningaaldur í sextán ár. vísir/valli
Tveir þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar hafa lagt fram, öðru sinni, frumvarp þess efnis að kosningaaldur verði færður úr átján árum í sextán ár. Leggja þau til að lögin öðlist gildi þegar í stað.

Það eru þau Árni Páll Árnason og Katrín Jakobsdóttir sem leggja frumvarpið fram. Það var lagt fram í mars síðastliðnum en varð ekki útrætt og því endurflutt. Í greinargerð með frumvarpinu segir að rýmkun kosningaaldurs sé meðal brýnna umræðuefna samtímans og að dræm og dvínandi þátttaka ungs fólks í kosningum valdi áhyggjum af framtíð lýðræðis. Líkur þyki til þess að fólk geti orðið afhuga stjórnmálaþátttöku og snúist af braut lýðræðislegrar stefnumótunar og ákvarðanaþátttöku.

Austurríki er eina landið í Evrópu sem stigið hefur þetta skref til fulls en þar var kosningaaldur lækkaður í sextán ár árið 2007 og kjörgengisaldur í átján ár, nema í forsetakosningum þars em hann er 35 ár. Þá hefur kosningaaldur til héraðs- og sveitarstjórna verið lækkaður í nokkrum Evrópulöndum, en þar má nefna Noreg þar sem sextán ára aldurstakmarki var komið á í tilraunaskyni í tuttugu sveitarfélögum.

Samfylkingin hefur samþykkt ályktun um sextán ára kosningaaldur, en þingmenn Vinstri grænna hafa tvisvar áður flutt þingmál efnislega samhljóða þessu frumvarpi. Frumvarpið má sjá í heild hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×