Innlent

Vilja opinbera greiðslur dagpeninga

Sveinn Arnarsson skrifar
Alþingismenn sinna mikilli vinnu utan landsteinanna. Á þessu kjörtímabili hafa þeir setið fundi erlendis í samtals 1.280 daga.
Alþingismenn sinna mikilli vinnu utan landsteinanna. Á þessu kjörtímabili hafa þeir setið fundi erlendis í samtals 1.280 daga. vísir/vilhelm
Þingflokksformenn Bjartrar framtíðar, VG og Pírata telja eðlilegt að dagpeningagreiðslur þingmanna verði gerðar opinberar. Brynhildur Pétursdóttir segist vera að undirbúa lagafrumvarp þess efnis að starfskostnaður þingsins verði gerður opinber líkt og tíðkast í Bretlandi.

„Já, mér finnst eðlilegt að þessar greiðslur séu opinberar og er að vinna að máli tengdu þessu. Þetta á ekki að vera neitt leyndarmál. Í Bretlandi er starfskostnaður þingmanna opinber öllum þeim sem vilja sem er jákvætt og gott, að hafa allar þessar upplýsingar opinberar,“ segir Brynhildur.

Alþjóðanefndir íslenska þingsins eru margar og fjöldi funda og ráðstefna haldinn um allan heim á hverju ári. Frá upphafi þessa kjörtímabils hafa þingmenn verið úti í sem nemur 1.280 dögum. Fimmtíu þingmenn hafa farið utan á vegum alþjóðanefnda þingsins.

Skrifstofa Alþingis neitaði Fréttablaðinu um upplýsingar um dagpeningagreiðslur til handa þingmönnum á þessu kjörtímabili þar sem upplýsingar sem þessar þyrfti að vinna sérstaklega. Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati segir það vera eðlilegt að þessar upplýsingar séu opinberar. „Það ber að hafa það í huga að þingmenn eru í vinnu erlendis og þetta er til þess að dekka kostnað við ferðalög. Ég sé svo sem ekkert því til fyrirstöðu að gera þessar upplýsingar opinberar en á móti kemur að þessar upphæðir eru ekkert til að skammast sín fyrir,“ segir Helgi.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformenn stjórnarflokkanna á þingi, hafa ekki tekið afstöðu til málsins. Hins vegar töldu þau eðlilegt að ræða málið á næsta fundi formanna þingflokka á mánudag.


Tengdar fréttir

30 milljónir í dagpeningagreiðslur

Alþingismenn hafa setið fundi erlendis í um 1.280 daga á þessu kjörtímabili. Karlar fara mun oftar utan en konur. Dagpeningagreiðslur þingmanna skerðast ekki þegar þeim er boðið til veislu erlendis þrátt fyrir að reglur segi til um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×