Innlent

Töluvert um veikindi á vinnustöðum landsins

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Helst eru það öndunarfærapestir sem nú eru að hrjá landann.
Helst eru það öndunarfærapestir sem nú eru að hrjá landann. vísir/vilhelm
Töluvert hefur verið um veikindi á vinnustöðum og í skólum landsins undanfarnar vikur. Helst eru það öndunarfærapestir sem nú eru að hrjá landann, sem þó er ekki óalgengt á þessum árstíma, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.

„Þetta byrjar alltaf á haustin; öndunarfæra- og niðurgangspestir. Til dæmis þegar börnin fara í leikskóla og skóla aftur þá fer þetta af stað og það er það sem við erum að sjá núna. Núna eru það aðallega öndunarfærasýkingar í gangi. Þetta er í raun alltaf sama sagan á þessum tíma og þegar fer að líða á veturinn þá koma aðrar sýkingar eins og inflúensa og annað,“ segir Þórólfur.

Hvetur fólk til að halda sig heima

Hann segir helstu einkennin slappleika, nefstíflu, hita og hósta. „Síðan er það hæsi og barkabólgur, en það er auðvitað einstaklingsbundið hvernig einkenni fólk fær.“

Þórólfur segir veikindin ganga yfir á um það bil viku hjá fullorðnum, en að hjá börnum geti það tekið lengri tíma, eða allt að þrjár vikur.

„Það er best fyrir þá sem eru veikir að halda sig heima, taka því rólega og leyfa þessum veikindum að ganga yfir. Þessar veirusýkingar ganga yfirleitt yfir að sjálfu sér. En ef fólk líður mjög illa, er óvenju þjakað eða veikindin dragast á langin þá hvet ég það til að leita til læknis, því það getur fengið í lungun. Þá geta jafnframt komið upp eyrnabólgur hjá börnum,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×