Enski boltinn

De Gea vongóður um að vera í liði Manchester United um helgina

Kristinn Páll Teitsson skrifar
De Gea hefur þurft að láta æfingartreyjuna duga undanfarnar vikur.
De Gea hefur þurft að láta æfingartreyjuna duga undanfarnar vikur. Vísir/Getty
Spænski markvörðurinn David De Gea segist vonast til þess að hann verði á milli stanganna í stórleik Manchester United og Liverpool á Old Trafford um helgina. De Gea hefur ekki enn leikið fyrir félagið á þessu tímabili en hann varði mark spænska landsliðsins í gær.

Það var mikið rætt um hvort De Gea gengi til liðs við Real Madrid í sumar og sagðist knattspyrnustjóri Manchester United, Louis Van Gaal, ekki geta valið hann á meðan ferlið stóð yfir. Taldi hann að hausinn hans væri ekki skrúfaður rétt á og treysti hann frekar hinum argentínska Sergio Romero.

De Gea sem hefur verið valinn besti leikmaður liðsins undanfarin tvö tímabil var hársbreidd frá því að ganga til liðs við Real Madrid í sumar. Hann var ánægður að fá mínútur gegn Makedóníu í gær í 1-0 sigri spænska landsliðsins.

„Mér leið vel inn á vellinum, það var gott að fá að spila einhverjar mínútur. Ég mun mæta aftur til æfinga og vonast til þess að fá að spila með félaginu mínu. Ég mun halda áfram að leggja hart að mér að æfingum og reyna að njóta þess að spila fótbolta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×