Enski boltinn

Cabaye: Ég var ekki velkominn hjá PSG

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cabaye náði ekki að vinna sér fast sæti í liði PSG.
Cabaye náði ekki að vinna sér fast sæti í liði PSG. vísir/getty
Yohan Cabaye, miðjumaður Crystal Palace, segir að nokkrir leikmenn Paris Saint-Germain hafi ekki viljað fá hann til félagsins á sínum tíma.

Cabaye gekk til liðs við PSG frá Newcastle United í janúar 2014 en náði aldrei að festa sig í sessi hjá frönsku meisturunum.

Hann ákvað því að söðla um í sumar og ganga til liðs við Crystal Palace þar sem hann hitti fyrir knattspyrnustjórann Alan Pardew  en Frakkinn lék undir hans stjórn hjá Newcastle.

„Ég veit fyrir víst að það voru ákveðnir leikmenn sem vildu ekki að ég kæmi til liðsins,“ sagði Cabaye um vistaskiptin til PSG.

„Í hvert sinn sem ég missti boltann eða gaf vitlausa sendingu var öskrað á mig og ég fékk illt augnaráð.“

Zlatan Ibrahimovic, aðalstjarna PSG, sagðist t.a.m. aldrei hafa séð Cabaye spila þegar Frakkinn var keyptur og samkvæmt frönsku fjölmiðlum efaðist fyrirliði PSG, Thiago Silva, um að Cabaye væri nógu góður til að spila með frönsku meisturunum.

„Hlutirnir gengu ekki upp í París en ég ber ekki kala til neins,“ sagði Cabaye sem sér ekki eftir því að hafa farið til Palace.

„Enginn af stóru klúbbunum sýndi áhuga og þetta var ekki einföld ákvörðun, langt því frá. En ég er að vinna aftur með gamla stjóranum svo ég vissi að ég var ekki á leið inn í óvissuna. Mér líður mjög vel.“

Cabaye hefur skorað eitt mark í þremur leikjum með Palace það sem af er þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×