Innlent

Leita að framúrskarandi ungum Íslendingum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sævar Helgi Bragason var valinn framúrskarandi ungur Íslendingur á síðasta ári.
Sævar Helgi Bragason var valinn framúrskarandi ungur Íslendingur á síðasta ári. vísir/anton
„Þetta er ekki vinsældarkosning,“ segir Elín Káradóttir verkefnastjóri Framurskarandi ungra Íslendinga 2015, en JCI á Íslandi hefur opnað fyrir tilnefningu til verðlaunanna Framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2015.

Markmið verðlaunanna er að verðlauna unga Íslendinga á aldrinum 18-40 ára sem eru að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni og ná undraverðum árangri. Á síðasta ári hlaut vísindamaðurinn Sævar Helgi Bragason verðlaunin vegna óeigingjarns starfs í þágu vísinda á Íslandi.

Elín segir að á síðasta ári hafi borist fjölmargar tilnefningar og nú þegar hafi borist nokkrar tilnefningar en opnað var fyrir þær í morgun. Þó að einn einstaklingur fái margar tilnefningar skiptir það ekki endilega máli heldur er það rökstuðningurinn á bakvið tilnefninguna sem vegur þyngst.

„Á síðasta ári fengum við margar tilnefningar. Sumt fólk fær margar tilnefningar en fjöldi tilnefninga skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er rökstuðningurinn á bakvið valið. Við erum ekki að leita fólki sem er bara að vinna vinnuna sína. Við erum að leita að fólki sem er framúrskarandi líkt og Sævar Helgi á síðasta ári. Þetta fór af stað í morgun og við höfum þegar fengið nokkrar tilnefningar.“

Hægt er að tilnefna einstaklinga á www.framurskarandi.is í alls tíu flokkum sem ná yfir flest svið þjóðfélagsins. Kosningu lýkur 25. ágúst og þá tekur dómnefnd við tilnefningum og velur úr tíu einstaklinga sem skarað hafa fram úr. Að lokum er svo einn einstaklingur valinn úr hópi þessara tíu og hlýtur hann verðlaunin Framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2015. Forseti Íslands mun afhenda verðlaunin við hátíðlega athöfn um miðjan september.






Tengdar fréttir

Framúrskarandi ungir Íslendingar

„Þetta eru verðlaun sem JCI-samtökin standa að baki, og eru veitt árlega. Þetta eru hvatningarverðlaun til ungs fólks sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni,“ sagði Tryggvi F. Elínarson, formaður verkefnisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×