Enski boltinn

Di Maria var of þreyttur fyrir læknisskoðunina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angel Di Maria.
Angel Di Maria. Vísir/Getty
Argentínumaðurinn Angel Di Maria er ekki enn búinn að ganga frá félagsskiptum sínum frá Manchester United yfir í franska félagið Paris Saint-Germain.

Ástæðan er að leikmaðurinn var of þreyttur fyrir læknisskoðunina eftir 20 klukkutíma ferðalag frá Argentínu til Doha en Daily Mail segir frá þessu.

Paris Saint-Germain borgar enska félaginu 44 milljónir punda fyrir leikmanninn en fyrir aðeins ári síðan keypti Manchester United hann á 59,7 milljónir punda frá Real Madrid.

Angel Di Maria hóf ferðalagið frá Argentínu til Katar á sunnudagskvöldið en fékk að fara upp á hótel til að hvíla sig og seinka læknisskoðuninni sem fer fram seinna í dag.

Eftir læknisskoðunina hjá Angel Di Maria mun hann síðan fljúga til Parísar þar sem hann skrifar undir fjögurra ára samning við Paris Saint-Germain.

Angel Di Maria byrjaði vel hjá Manchester United með tvö mörk og tvær stoðsendingar í fyrstu fjórum leikjunum en náði ekki að fylgja þeirra góðu byrjun eftir.

Hann náði aldrei að standa undir því að vera dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins og varð ekki sá bjargvættur sem Louis Van Gaal og United-menn höfðu vonast eftir.

Hann klæddist sjöunni eins og hetjurnar George Best, Bryan Robson, Eric Cantona, David Beckham og Cristiano Ronaldo en hefði kannski betur sleppt því að setja þá pressu á sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×