Fótbolti

Bandaríska kvennalandsliðið heimsmeistari eftir sextán ára bið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bandarísku stelpurnar fagna heimsmeistaratitlinum í nótt.
Bandarísku stelpurnar fagna heimsmeistaratitlinum í nótt. Vísir/Getty
Bandaríkin er heimsmeistari kvenna í knattspyrnu í þriðja sinn í sögunni eftir 5-2 sigur á fráfarandi heimsmeisturum Japans í úrslitaleik HM kvenna í Kanada sem fram fór í Vancouver í nótt.

Bandaríska landsliðið varð síðast heimsmeistari árið 1999 en liðið tapaði í vítakeppni á HM í Þýskalandi fyrir fjórum árum og vann bronsið 2003 og 2007.

Bandaríska liðið skoraði fjögur af fimm mörkum sínum á ótrúlegum fyrstu sextán mínútum leiksins þar sem Carli Lloyd skoraði meðal annars fyrstu þrennu í úrslitaleik HM kvenna frá upphafi.

Japanska liðið var búið að vinna fyrstu sex leiki sína á heimsmeistaramótinu og hafði aldrei lent undir í öllu mótinu. Leikur liðsins hrundi hinsvegar á upphafsmínútum leiksins.

Bandarísku stelpurnar skoruðu tvö mörk úr útpældum föstum leikatriðum á fyrstu fimm mínútuum leiksins og var Carli Lloyd að verki í bæði skiptun. Fyrra markið kom eftir horn en það síðara eftir aukaspyrnu.

Lauren Holiday kom bandaríska liðinu í 3-0 á 14. mínútu eftir afar misheppnaða hreinsun hjá japönskum varnarmanni og Carli Lloyd innsiglaði síðan þrennu sína með skoti nánast frá miðju á 16. mínútu leiksins.

Yuki Ogimi minnkaði muninn í 4-1 á 27. mínútu og var þar með sú fyrsta til að skora hjá Hope Solo, markverði Bandaríkjanna í 539 mínútur eða síðan í fyrsta leik bandaríska liðsins á heimsmeistaramótinu.

Smá spenna kom í leikinn eftir að Julie Johnston varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og minnka muninn í 4-2 á 52. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar skoruðu bandarísku stelpurnar enn á ný eftir fast leikatriði þegar Tobin Heath kom Bandaríkjunum í 5-2.

Carli Lloyd skoraði alls sex mörk í mótinu en öll þessi sex mörk hennar komu í útsláttarkeppninni. Lloyd skoraði eitt mark í 16 liða úrslitunum, átta liða úrslitunum og undanúrslitunum.

Abby Wambach og Christie Rampone komu inná sem varamenn í seinni hálfleik. Wambach er markahæsti leikmaður bandaríska landsliðsins frá upphafi og varð þarna að vera heimsmeistari í fyrsta sinn þrátt fyrir að hafa spilað í landsliðinu í fjórtán ár.

Hin fertuga Christie Rampone var að spila sinn 308. landsleik er eini leikmaður liðsins sem var með þegar Bandaríkin varð heimsmeistari 1999. Rampone er elsti leikmaðurinn til að spila úrslitaleik á HM.

Sextán ára bið á enda.Vísir/Getty
Abby Wambach kveður sem heimsmeistari.Vísir/Getty
Reynsluboltarnir Abby Wambach og Christie Rampone lyftu heimsbikarnum.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×