Enski boltinn

Eggert vonast til að komast aftur í landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eggert í leik með Vestsjælland.
Eggert í leik með Vestsjælland. vísir/getty
Eggert Gunnþór Jónsson vonast til að góð frammistaða með Fleetwood Town muni hjálpa honum að endurheimta sæti sitt í íslenska landsliðinu.

„Íslenska landsliðið er að gera mjög góða hluti þessi misserin. Því miður hef ég ekki verið í landsliðshópnum að undanförnu vegna meiðsla,“ sagði Eggert í viðtali á heimasíðu Fleetwood en hann gerði tveggja ára samning við enska C-deildarliðið í dag.

„Það eru spennandi tímar framundan og Ísland er líklega á leið á EM á næsta ári, svo vonandi kemst ég aftur í landsliðið og get tekið þátt í þessu spennandi verkefni,“ sagði Eggert ennfremur en hann lék síðast með íslenska landsliðinu gegn því svissneska á Laugardalsvelli í október 2012.

Eggert þekkir vel til fótboltans á Bretlandi en hann lék um sjö ára skeið með Hearts í Skotlandi og svo um skamma hríð með Wolves og Charlton á Englandi.

Hann segist ánægður að vera kominn aftur í enska boltann og segir að hann hafi margt að sanna.

„Ég er mjög ánægður að vera kominn hingað og hlakka til að taka þátt í uppbyggingunni hjá félaginu og hjálpa því að komast enn lengra,“ sagði Eggert en hjá Fleetwood hittir hann fyrir landa sinn, Grétar Rafn Steinsson, sem er yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.

„Ég var í sjö ár hjá Hearts sem er langur tími. Edinborg er líka fín borg svo ég naut mín vel þar. Ég fór svo til Wolves og þar gengu hlutirnir ekki upp sem var svekkjandi.

„En ég get ekki hugsað lengur um það. Ég er bara ánægður að vera kominn aftur og vil nýta tækifærið til að hjálpa Fleetwood að ná sem lengst.

„Þú þarft alltaf að sanna þig þegar þú ferð til nýs félags. Þú þarft að kynnast leikmönnum og starfsliði og vil ég sýna hvers ég er megnugur.“

Eggert lék síðast með Vestsjælland í Danmörku en þar áður var hann á mála hjá Belenenses í Portúgal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×