Enski boltinn

Grétar Rafn fær Eggert til Fleetwood

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eggert er á leið í ensku C-deildina.
Eggert er á leið í ensku C-deildina. vísir/daníel
Eggert Gunnþór Jónsson er á leið til Fleetwood Town sem leikur í C-deildinni á Englandi.

Hjá Fleetwood hittir Eggert fyrir landa sinn og fyrrverandi félaga í íslenska landsliðinu, Grétar Rafn Steinsson, sem starfar sem yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.

Á Facebook-síðu Fleetwood er birt óskýr mynd af Eggerti og spurt hver þessi nýjasti leikmaður leikmaður félagsins sé. Sá sem kemur fyrstur með rétt svar fær að launum áritaða Fleetwood-treyju.

Eggert, sem verður 27 ára í næsta mánuði, lék með Vestsjælland í Danmörku seinni hluta síðasta tímabils en samningur hans rann út eftir tímabilið.

Hann þekkir vel til í Bretlandi en hann lék með Hearts í Skotlandi um sjö ára skeið og svo með Wolves og Charlton á Englandi.

Eggert, sem hóf ferilinn með Fjarðabyggð 2004, hefur leikið 19 A-landsleiki, þann síðasta gegn Sviss 16. október 2012.

Uppfært klukkan 13:30:

Eggert skrifaði undir eins árs samning við Fleetwood með möguleika á einu ári til viðbótar. Hann mætti á sína fyrstu æfingu með liðinu í morgun og gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir félagið gegn AFC Fylde á morgun.

Graham Alexander, knattspyrnustjóri Fleetwood, kveðst ánægður með liðsaukann.

„Hann er búinn að standast læknisskoðun og skrifa undir og við erum hæstánægð að hafa fengið hann því hann er mjög góður leikmaður,“ er haft eftir Alexander á heimasíðu Fleetwood.

„Við vorum að fá góðan leikmann á góðum aldri sem passar vel inn í okkar plön. Hann er reyndur og mikill keppnismaður. Hann kann leikinn og er fjölhæfni hans er mikilvæg, því hann getur bæði spilað í miðri vörninni og á miðjunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×