Fótbolti

Þrjú rauð spjöld í sigri Chile | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mauricio Isla og Alexis Sánchez fagna marki þess fyrrnefnda.
Mauricio Isla og Alexis Sánchez fagna marki þess fyrrnefnda. vísir/getty
Chile varð í nótt fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Suður-Ameríkukeppninnar með 1-0 sigri á Úrúgvæ í Santíagó.

Markið og helstu atvik úr leiknum má sjá í myndbandinu hér að neðan.

Heimamenn í Chile, sem hafa aldrei unnið keppnina, voru miklu meira með boltann í leiknum (80% gegn 20%) en vörn Úrúgvæ, sem vann keppnina fyrir fjórum árum, var ógnarsterk.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 63. mínútu dró til tíðinda þegar Edinson Cavani, framherji Úrúgvæ, fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir afar litlar sakir.

Edinson Cavani fékk að líta rauða spjaldið.vísir/getty
Pressa Chile jókst einungis við þetta og heimamenn brutu loks ísinn á 81. mínútu þegar hægri bakvörðurinn Mauricio Isla skoraði með góðu skoti eftir flotta sókn og sendingu frá Jorge Valdívia, besta manni vallarins.

Ekki var allt búið enn því tveimur mínútum fyrir leikslok var Jorge Fucile einnig rekinn út af við litla hrifningu úrúgvæska liðsins.

Leikmenn Úrúgvæ mótmæltu brottrekstrinum harkalega og nokkur töf varð á leiknum vegna þess en þjálfara Úrúgvæ, hinum 68 ára gamla Óscar Tabárez, var m.a. vikið upp af velli fyrir mótmæli.

Fleiri urðu mörkin ekki og Chile fagnaði sigri og sæti í undanúrslitunum. Þar mæta heimamenn sigurvegaranum úr leik Bólivíu og Perú en liðin mætast í Temuco í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×