Sport

Gull hjá Þórdísi Evu: Heiður að vera í liði Íslands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórdís Eva kemur í mark í dag.
Þórdís Eva kemur í mark í dag. Vísir/Pjetur
Þórdís Eva Steinsdóttir, frjálsíþróttakona úr FH, gerði sér lítið fyrir og bar sigur úr býtum í 400 m hlaupi á Smáþjóðaleikunum í Reykjavík í dag.

Þórdís Eva hljóp á 55,72 sekúndum sem er þrátt fyrir allt nokkuð frá hennar besta tíma. Engu að síður gerðu hún nóg til að vinna og var 0,24 sekúndum á undan Janet Richard frá Möltu.

„Ég var frekar að einbeita mér að því að vinna hlaupið en að bæta minn besta tíma,“ sagði Þórdís Eva við Vísi eftir hlaupið í dag.

„Þetta er mitt fyrsta A-landsliðsmót og langaði mig mest til að fara á pall. Og helst til að vinna,“ sagði þessi stórefnilega frjálsíþróttakona.

„Ég er mjög ánægð með þetta. Það er ótrúlega gaman að fá að keppa með þessum öflugu keppendum og heiður að fá að vera hluti af þessu frjálsíþróttalandsliði.“

Þórdís segir að hún hafi byrjað rólega í dag. „Startið var ekkert spes en ég kom sterk inn í lokin sem var gott.“

Þórdís Eva stefnir að því að keppa í 4x400 m boðahlaupi á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×