Sport

Hrafnhildur með gull og nýtt Íslandsmet í 100 metra bringusundi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku keppendurnir hafa gert það gott í lauginni á Smáþjóðaleikunum.
Íslensku keppendurnir hafa gert það gott í lauginni á Smáþjóðaleikunum. vísir/vilhelm
Hrafnhildur Lúthersdóttir setti nú rétt í þessu nýtt Íslandsmet í 100 metra bringusundi á Smáþjóðaleikunum.

Hrafnhildur synti á tímanum 1:08,07 mínútum og sló Íslandsmetið, sem hún átti sjálf, um 12 hundraðhluta úr sekúndu. Hrafnhildur gerði sér einnig lítið fyrir og sló eigið mótsmet á Smáþjóðaleikunum. Gamla metið, sem hún setti í Liechtenstein fyrir fjórum árum, var 1:10,92 mínútur.

Sjá einnig: Hrafnhildur náði Ólympíulágmarki í 200 metra bringusundi.

Jóhanna Gerða Gústafsdóttir hirti silfurverðlaunin en hún kom í bakkann á 1:13,19 mínútum.

Í karlaflokki í 100 metra bringusundi hafnaði Anton Sveinn McKee í öðru sæti en hann synti á 1:02,81 mínútum. Laurent Carnol frá Lúxemborg varð hlutskarpastur á tímanum 1:01,24 mínútum sem er nýtt mótsmet. Gamla metið átti Jakob Jóhann Sveinsson - 1:02,60 mínútur.

Viktor Máni Vilbergsson hafnaði í 5. sæti á tímanum 1:05,85 mínútum.

Í 200 metra skriðsundi kvenna nældi Inga Elín Cryer sér í bronsverðlaun en hún synti á tímanum 2:05,40 mínútum. Í karlaflokki endaði Daníel Hannes Pálsson í 4. sæti á tímanum 1:55,00 mínútum. Kristófer Sigurðsson kom fast á hæla hans á tímanum 1:55,34 mínútum.

Bryndís Rún Hansen vann til silfurverðlauna í 50 metra skriðsundi en hún synti á 25,95 sekúndum. Ingibjörg Kristín Jónsdóttir kom næst á tímanum 26,39 sekúndum.

Í karlaflokki í 50 metra skriðsundi hafnaði Alexander Jóhannesson í 3. sæti á tímanum 23,70 mínútum. Ágúst Júlíusson kom þar á eftir á 24,20 sekúndum.

Uppfært klukkan 20:00.

Boðsundssveit Íslands í karlaflokki vann til silfurverðlauna í 4x100 metra boðsundi. Íslenska sveitin synti á tímanum 3:49,01 mínútum. Sveitina skipuðu Kolbeinn Hrafnkelsson (bak), Anton Sveinn McKee (bringa), Ágúst Júlíusson (flug) og Alexander Jóhannesson (skrið).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×