Lífið

Heitar umræður á The Biggest Loser málþingi: "Verið að senda röng skilaboð“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frummælendur málþingsins ásamt fundarstjóra
Frummælendur málþingsins ásamt fundarstjóra mynd/þorkatla elín sigurðardóttir
Í vikunni stóðu þrír sálfræðinemar við Háskólann í Reykjavík, þau Katrín Mjöll Halldórsdóttir, Bjarki Þór Grönfeldt og María Ósk Sverrisdóttir, fyrir málþingi þar sem sjónvarpsþátturinn The Biggest Loser var til umræðu.

Frummælendur voru Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, sigurvegari The Biggest Loser 2014, Hafrún Kristjánsdóttir, sviðstjóri íþróttafræðisviðs HR, Gabríela Bryndís Ernudóttur, sálfræðingur og Guðríður Erla Torfadóttir, annar þjálfara þáttanna.

Fjöldi manns sótti þingið og þurftu nokkrir frá að hverfa því fullt var út úr dyrum. Miklar umræður spunnust um ágæti þáttarins og var einverjum viðstaddra heitt í hamsi. Vísir birtir hér sjónarmið frummælendanna.

Gabríela Bryndís Ernudóttirmynd/Þórkatla Elín Sigurðardóttir
Þættirnir auka á fitufordóma í samfélaginu

„Ég er ekki sú fyrsta sem gagnrýni þessa þætti,“ segir Gabríela Bryndís Ernudóttir. Hún bendir á að sjö íslensk fagfélög hafi gefið út að þau gætu ekki viðhaft þá nálgun sem sýnd er í þáttunum. Segja þau að nálgunin samræmist ekki siðareglum félaganna

„Í fyrsta lagi þykir nafnið afar niðrandi. Rannsóknir hafa sýnt að áhorf á þættina eykur fitufordóma. Það er mjög alvarlegt að það sé ekki tekið tillit til þess því feitt fólk verður fyrir mismunum á ýmsum sviðum samfélagsins. Til að mynda var feitum konum frekar sagt upp í kjölfar hrunsins en grönnum konum.“

Gabríela segir að helsta ástæðan fyrir því að þættirnir ýti undir fordóma sé að þeir ýti undir þá ranghugmynd að holdafari sé alfarið hægt að stjórna með eigin hegðun. Til séu rannsóknir sem sýni fram á að þessar forsendur standist ekki, fólk grennist aðeins í stuttan tíma en sjaldgæft er að þyngdartap haldist til lengdar.

Þátttakendur hlutgerðir í vigtuninni

Hún segir að í öðru lagi sé grafalvarlegt mál hvernig þættirnir hlutgeri fólk. Í upphafi þáttanna, þegar keppendur eru hvað þyngstir, þá eru þeir vigtaðir fyrir framan hvern annan og yfirleitt fáklæddir. Einu sinni í viku séu keppendur vigtaðir og þegar líður á þáttaröðina, eftir því sem keppendur léttast, fá þeir oftar en ekki að klæðast fleiri fötum.

„Þetta virðist eingöngu gert til að búa til einhverskonar „shock effect“ og til að skapa einhverja niðurlægingu. Þarna er verið að hlutgera fólk sem ber að taka alvarlega því hlutgerving er oft fyrsta skrefið í átt að ofbeldi og mismunum gagnvart ákveðnum hópi,“ segir Gabríela.

„Mér finnst það ekki skrítið að fagfólk neiti að taka þátt í þættinum. Ég myndi að sjálfsögðu aldrei vísa skjólstæðingi sem kæmi til mín frá en ég myndi aldrei geta starfað í því starfsumhverfi sem þættirnir skapa.“

Guðríður Erla Torfadóttirmynd/þorkatla elín sigurðardóttir
Sálfræðingar neituðu að veita aðstoð

„Ég var bara ég sjálf og lét sem ég sæi ekki myndavélarnar,“ segir Guðríður Erla Torfadóttir en hún sá um þjálfun keppenda í Biggest Loser ásamt Evert Víglundssyni. „Þetta er raunveruleikasjónvarp og ekkert af því sem fram kemur í þáttunum er fyrirfram skrifað. Það eina sem ég veit þegar ég fer í tökur er að það eru æfingar þrisvar til fjórum sinnum í viku og vigtun á föstudögum. Annað gerist bara á staðnum.

Guðríður, eða Gurrý eins og hún er yfirleitt kölluð, segir að á málþinginu hafi hún talað um aðkomu sína að þættinum og svarað fyrir gagnrýni sem að honum sneri. „Helsta gagnrýnin sneri að því að þau hefðu ekki fengið næga næringu sem er einfaldlega ekki satt. Ég sýndi þeim sem voru á málþinginu matarplan sem keppendur fengu og það er lítið hægt að kvarta yfir því.“

Í þriðju viku þáttanna segir Gurrý að hún hafi haft samband við framleiðendur og beðið um sálfræðiaðstoð fyrir tvo þátttakendur eftir að þeir sögðu henni frá erfiðri reynslu sem þeir urðu fyrir í æsku. Framleiðendur reyndu að verða við þeirri beiðni en enginn sálfræðingur vildi taka fólkið að sér.

„Mér finnst það fyrir neðan allar hellur,“ segir Gurrý. „Það var enginn beðinn um að taka þátt sjónvarpsþættinum heldur eingöngu veita ráðgjöf. Þarna var hins vegar fólk sem hefði þurft aðstoð og var hafnað af því það var að taka þátt í sjónvarpsþætti. Myndi læknir gera það sama? Satt best að segja virkar frekar yfirborðskennt fyrir mig að heyra sálfræðinga segja að þeir myndu aldrei koma og hjálpa fólki sem er að taka þátt í sjónvarpsþætti."

Þrumuræður eru krassandi í sjónvarpi

„Það er einfaldlega ekki rétt að komum ekki fram við keppendur af virðingu og samkvæmt bestu þekkingu,“ segir Gurrý og segir þetta í fullu samræmi við það sem hún hafi gert hingað til í þjálfuninni. „Ég þjálfa samkvæmt því sem ég tel vera rétt og því sem ég hef lært og lagði mikla áherslu á tækni við gera armbeygjur, hnébeygjur og aðrar helstu grunnæfingar. Stundum verður mér heitt í hamsi við þjálfun en það er eingöngu vegna þess að mér þykir raunverulega vænt um hvern einasta einstakling sem ég vinn með.“

Hún bendir á að þetta sé sjónvarpsþáttur og þar af leiðandi sé ekki allt sýnt heldur aðallega það sem er mest krassandi. „Þrumuræður og skammir koma vel út í sjónvarpi. Ég er í góðu sambandi við marga af þátttakendunum og veit ekki annað en að þau eigi góðar minningar frá veru sinni þarna. Margir þeirra hafa þakkað mér fyrir þann stuðning og ráðgjöf sem ég veitti.“

„Það er auðvelt að standa í fílabeinsturni og gagnrýna en væri ekki betra ef við myndum taka höndum saman og hjálpast að? Ég hef hjálpað mörgum að komast af stað við að læra borða hollt og gera hreyfingu að lífstíl. Þetta snýst ekki um að vera grannur heldur að lifa heilbrigðu lífi og bæta líðan fólks,“ segir Gurrí.

Hafrún Kristjánsdóttirmynd/þorkatla elín sigurðardóttir
Aðferðirnar hafa aldrei verið vottaðar

„Það fyrsta sem ég gerði var að skoða hvað stæði á heimasíðu Skjásins,“ segir Hafrún Kristjánsdóttir, sviðstjóri í íþróttafræðisviðs við Háskólann í Reykjavík. Meðal þess sem fram kemur á heimasíðunni er að þúsundir einstaklinga hafi farið í gegnum heilsuferli The Biggest Loser og gerbreytt lífsháttum sínum. Einnig kemur fram að það sé vottað af læknum, sálfræðingum, og næringarfræðingum.

„Þetta er einfaldlega ekki rétt. Þessir þættir eru ekki vottaðir af íslenskum heilbrigðisstarfsmönnum og engin gögn eru til um það að þúsundir einstaklinga hafi gerbreytt lífsháttum sínum eftir að hafa tekið þátt í Biggest Loser. Það eru einfaldlega ekki til nein gögn sem benda til þess að þeir sem taki þátt í Biggest Loser nái árangri til langs tíma, einungis dæmisögur,“ segir Hafrún

Hún bætir við að þær aðferðir sem notaðar eru í þáttunum, allavega þær sem sýndar eru í sjónvarpi, ekki í takt við bestu þekkingu í þjálffræði, lífaflfræði, sálfræði og næringarfræði. Sem dæmi megi nefna að álag á liði og brjósk er óhóflegt í sumum af þeim æfingum sem þátttakendur eru látnir gera.

Hún bætir jafnframt við að það sem kemur fram í þættinum virðist ekki vera byggt á neinum fræðum eða rannsóknum. Það sé ekki til neitt sem staðfesti ágæti þáttanna. Það eina sem er til séu jákvæðar sögur sumra þátttakenda en svo séu til aðrir sem upplifðu þættina sem slæma reynslu.

„Þetta minnir örlítið á einhvern sem er að reyna að selja eitthvað húmbúkk, dæmisögur af árangri eru sagðar en engin raunveruleg gögn um árangur eru til auk þess sem að þær aðferðir sem eru notaðar ganga gegn þeirri þekkingu sem aflað hefur verið með vísindalegum rannsóknum. Ef þeim sökum þá þarf kannski ekki að koma á óvart að fjölmörg fagfélög sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þau áréttuðu að þær aðferðir sem notaðar væru í Biggest Loser samræmdust ekki faglegum vinnubrögðum.“

Jóhanna Elísa Engelhartsdóttirmynd/þorkatla elín sigurðardóttir
Fannst ég þurfa að komast í burtu

„Ég tala einungis út frá sjálfri mér og minni upplifun,“ segir Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, sigurvegari The Biggest Loser í fyrra. „Ég hef gaman af því vera með fjölskyldunni minni, að ferðast um landið mitt á sumrin, fara á skíði, hitta vinkonur mínar, spila, sauma út, lesa, og síðast en ekki síst hef ég gaman af því að hreyfa mig.“

Hún segir að allt þar til fyrir rúmu ári hafi hún glímt við ofþyngd. Á tímum hafi hún gert sér grein fyrir því að hún notaði mat ekki aðeins til að fá orku úr heldur sótti hún einnig huggun og verðlaun í fæðuna. Vanlíðan hennar hafi eingöngu verið andleg en ekki líkamleg. Henni leið illa þegar hún horfði í spegil og hún forðaðist eftir fremsta megni að fara með börnin sín í sund.

„Ég prófaði ekki alla kúra sem gengið höfðu yfir landið heldur vissi ég að til að léttast þyrfti ég að borða minna og hollara og hreyfa mig meira. Ég hafði farið til einkaþjálfara oftar en einu sinni þar sem ég grenntist og styrktist en hugur minn fyldgi ekki með. Ég stalst oft til að fá mér örlítin bita utan máltíða og ég tók nammidaginn alvarlega. Mér fannst ég þurfa að komast í burtu til að núllstilla mig.“

Auglýsing Sagafilm um The Biggest Loser var því eins og himnasending fyrir hana. „Ég vissi að ég hefði keppnisskapið sem til þurfti, ekki endilega til að sigra keppnina heldur fyrst og fremst til þess að sigra sjálfa mig,“ segir Jóhanna. Þetta hafi verið einstakt tækifæri til að komast frá hennar daglegu rútínu og taka sig á.

Gerði mér grein fyrir hvað ég var að fara út í

„Ég hafði séð erlendu þættina og ég vissi fullkomlega hvað ég var að fara út í. Að ég þyrfti að standa fáklædd á vigt fyrir framan alþjóð og að ég þyrfti að æfa mikið, borða minna og hollara,“ segir Jóhanna. Dvöl hennar á Ásbrú fór langt umfram þær væntingar sem hún hafði sökum alls þess sem hún lærði, upplifði og fékk að kynnast. Allir sem komu að þættinum gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að aðstoða þátttakendurna

„Margir halda að þættirnir snúist um það að gera lítið úr okkur en þvert á móti þá reyndu allir sitt besta til að byggja okkur upp. Áhorfendur sjá eingöngu klukkustund úr heilli viku og til að gera þetta sem best sjónvarp þá eru mest krassandi hlutirnir valdir til sýningar. Við æfðum mikið og þetta var erfitt en það var aldrei farið yfir þolmörk okkar.“

Því hefur verið haldið fram að þættirnir ýti undir fitufordóma en Jóhanna segir að það sýni eingöngu hvaða mann áhorfandinn hafi að geyma. Fitufordómar séu til staðar í samfélaginu og allt feitt fólk sé sett undir sama hatt. Feitir séu kallaðir átsjúkir letihaugar sem skorti bæði sjálfstæða hugsun og vilja en þessir þættir opni oft augu fólks fyrir því hve mismundandi fólk er.

„Við glímum við okkar erfiðleika líkt og aðrir en munurinn á okkur og öðrum er að við berum okkar vandamál utan á okkur. Margir sem ljúka ferlinu fara í sama farið aftur. En því sé eins farið með fólk sem glímir við alkóhólisma eða önnur vandamál. Fólk á það til að falla af vagninum. Átfíknin mín er enn til staðar en ég hef lært að halda henni í skefjum og ég mun gera mitt besta til að halda mér á vagninum og til að koma í veg fyrir að fólk geti sagt „Sko, ég sagði það!““ segir Jóhanna að lokum.


Tengdar fréttir

Aldrei haldið fram að um innlenda vottun væri að ræða

„Það er rétt að við vísum í að þættirnir séu vottaðir af læknum, sálfræðingum og næringarfræðingum en höfum aldrei tekið fram að innlenda vottun sé að ræða enda er formatið erlent,“ segir Pálmi Guðmundsson hjá Skjánum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×