Enski boltinn

Tiger skipt út fyrir Rory

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rory McIlroy hefur leyst Tiger Woods af hólmi sem andlit PGA Tour-tölvuleiksins frá EA Sports. Þetta marka þáttaskil í golfheiminum enda hefur Tiger auðkennt leikinn allar götur frá 1998.

Leiðir skildu hjá Woods og tölvuleikjaframleiðandanum í lok árs 2013 en í dag var svo tilkynnt að leikurinn muni nú bera nafn McIlroy.

„Þetta er mikill heiður og eitthvað sem mig dreymdi ekki einu sinni þegar ég var að alast upp. Ég vona að fólk njóti leiksins og ég er ánægður með að vera hluti af honum,“ sagði McIlroy.

Woods hefur átt erfitt uppdráttar síðastliðið ár eftir að hafa glímt við bakmeiðsli en McIlroy, sem er 25 ára gamall, er efsti maður heimslistans og vann bæði PGA-meistaramótið og Opna breska meistaramótið í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×