Enski boltinn

Barton gæti leitað sér aðstoðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chris Ramsey, stjóri QPR, segir mögulegt að Joey Barton muni leita sér hjálpar eftir að hafa fengið rautt spjald í leik liðsins gegn Hull í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Barton hefur margsinnis komið sér í vandræði á ferlinum fyrir misjafna hegðun sína bæði innan vallar sem utan. Hann hefur reynt að hemja sig á síðustu misserum en hann sýndi sitt gamla eðli um helgina.

Barton kýldi þá Tom Huddlestone, leikmann Hull, í punginn og fékk vitaskuld að líta rauða spjaldið fyrir það.

„Ég er viljugur að ræða þann möguleika við hann,“ sagði Ramsey aðspurður um hvort að Barton þurfi að leita sér hjálpar og fara á reiðistjórnunarnámskeið, eins og hann hefur áður gert.

Barton baðst afsökunar á atvikinu en Charlie Austin, sóknarmaður QPR, sagði engu að síður að hegðun hans hefði orðið til þess að liðið tapaði leiknum.

Barton fer nú í þriggja leikja bann og missir af leikjum QPR gegn Arsenal, Tottenham og Crystal Palace en þetta var hans níunda brottvísun á ferlinum. Hann var búinn að fá áminningu í sjö leikjum í röð fyrir leikinn gegn Hull sem er met í ensku úrvalsdeildinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×