Enski boltinn

Crowe fær ekki að kaupa Leeds

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Russell Crowe yrði fagnað af mörgum stuðningsmönnum Leeds.
Russell Crowe yrði fagnað af mörgum stuðningsmönnum Leeds. Vísir/Getty
Leeds er ekki til sölu að sögn eiganda félagsins og breytir áhugi leikarans Russell Crowe engu þar um.

Crowe spurði á Twitter-síðu sinni í gær hvort fylgjendum hans þætti það góð hugmynd að kaupa félagið, sem hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár.

Sjá einnig: Crowe valdi ruðningsliðið sitt fram yfir Óskarinn

Félagið er í eigu eignarhaldsfélags sem heitir Eleonora Sport Limited nýverið seldi Massimo Cellino sinn hlut í félaginu eftir að honum var bannað að gegna starfi forseta félagsins.

Andrew Umbers, stjórnarformaður Leeds, segir þó að Cellino-fjölskyldan sé enn að byggja upp félagið og að hún sé með langtímaáætlun í huga. Það sé enginn áhugi á að selja félagið.

„Félagið er ekki til sölu,“ sagði hann. „Cellino-fjölskyldan hefur engan áhuga á að selja en við höfum heldur ekki fengið neinar fyrirspurnir um þetta þrátt fyrir fréttaflutning fjölmiðla.“

Crowe er mikill íþróttaaðdáandi og er einn eiganda eins besta ruðningsliðs heims, South Sydney Rabbitohs frá Ástralíu. Hann hefur stutt Leeds síðan í æsku er félagið var upp á sitt allra besta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×