Innlent

Guðmundur stígur til hliðar og hleypir öðrum að

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar ætlar að leggja til á flokksfundi að forysta flokksins skiptist á um að gegna formannsembættinu. Róbert Marshall, þingflokksformaður segir að það sé ekki í anda flokksins að kenna formanninum einum um fylgistapið.

Guðmundur Steingrímsson hefur ekki viljað ræða við fjölmiðla eftir Heiða Kristín Helgadóttir annar stofnenda flokksins lýsti því í þættinum Vikulokunum í Ríkisútvarpinu að hún gæti vel hugsað sér að að taka við formennsku í flokknum. Hún hafði þá áður lýst því yfir að hún vildi ekki leysa Björt Ólafsdóttur af sem þingmaður meðan hún færi í fæðingarorlof nema formannsskipti yrðu í flokknum.

Guðmundur sagðist í viðtali við Stöð 2 hafa orðið leiður yfir ummælum Heiðu Kristínar. Hann telji það ekki til góðs fyrir flokkinn að fara út í formannsslag. „Dæmin allt í kringum okkur eru að sýna okkur það, að öll þessi áhersla á formenn og hver er formaður, á ábyrgð hans og persónuleika, eru að standa allri almennilegri pólitík fyrir þrifum.“

Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, segir að það sé barnaskapur að halda að einn maður geti híft fylgi flokka upp og niður. Fylgistap Bjartrar framtíðar sé ekki Guðmundi Steingrímssyni einum að kenna. Gagnrýni Heiðu Kristínar Helgadóttur sé ekki í anda flokksins.

Flottasta „comeback“ Íslandssögunnar

Hann sagðist hinsvegar ætla að leggja til að helstu embættum flokksins, þar á meðal formennskunni yrði róterað framvegis. „Í þessu felst að ég sjálfur yrði ekki lengur formaður, nema þegar röðin kæmi að mér að axla þá ábyrgð til jafns við aðra,“ segir Guðmundur í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér.

Hann var líka spurður í samtali hvort hann héldi að Björt framtíð ætti sér bjarta framtíð miðað við það fylgi sem samtökin væru að fá í könnunum. Hann sagðist halda það, enda ættu samtökin innilegt erindi. Þegar þau kæmust í gegnum þetta, flottari en nokkru sinni og betri en nokkru sinni. Þá yrði þetta flottasta „comeback“ Íslandssögunnar í pólitík.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×