Innlent

Tvö störf nú þegar boðist

Sæunn Gísladóttir skrifar
Gissur Pétursson er forstjóri Vinnumálastofnunar.
Gissur Pétursson er forstjóri Vinnumálastofnunar. vísir/valli
Nú þegar hafa tvö störf boðist flóttamönnum á landinu eftir að Vinnumálastofnun kallaði eftir starfstækifærum fyrir flóttamenn þann 16. nóvember síðastliðinn. Þetta staðfestir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.

„Ég held það séu komin tvö störf nú þegar, þannig að það hafa einhverjir tekið við sér sem er hið besta mál,“ segir Gissur.

„Það sem fyrir okkur vakir er að höfða til fyrirtækjanna vegna þess að það var hér fyrr í haust mikill áhugi borgaranna til þess að koma til hjálpar við móttöku flóttamanna. Eins og sakir standa hafa sjötíu manns fengið stöðu flóttamanns á árinu og svo er hópur á leiðinni sem er nokkrar fjölskyldur, þó kannski ekki allt fólk á vinnualdri. Besta leiðin fyrir það til að aðlagast hinu nýju samfélagi er að fá færi á að stunda atvinnu,“ segir hann.

Gissur segir að flóttamönnum hafi almennt gengið vel að fá vinnu hér á landi. „Árangurinn af því að koma flóttafólki í vinnu hér á landi ræðst mjög mikið af tungumálakunnáttu þess og viljanum til vinnu. Það hefur gengið vel að finna störf fyrir þá sem eru þokkalega enskumælandi og tilbúnir til að taka nokkurn veginn hvaða störfum sem er. Árangurinn er ekki jafn góður hjá þeim sem illa eru mælandi á ensku, sem er allnokkur hópur,“ segir Gissur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×