Enski boltinn

Villa, Palace, Stoke og WBA í vandræðum í deildabikarnum en sluppu öll

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Stoke fagna sigri í vítakeppninni í kvöld.
Leikmenn Stoke fagna sigri í vítakeppninni í kvöld. Vísir/Getty
Ensku úrvalsdeildarliðin Aston Villa, Crystal Palace,  Stoke City og West Bromwich Albion lentu í vandræðum í annarri umferð enska deildabikarsins í kvöld. Öll komust þau áfram þar af fóru Stoke og West Bromwich Albion alla leið í vitakeppni.

Tvö Íslendingalið komust áfram, Swansea City og Charlton, en landsliðsmennirnir Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson voru báðir hvíldir í kvöld.

Stoke City vann 8-7 sigur á Luton Town í vítakeppni en úrslitin réðust ekki fyrr en í áttundu umferð þegar Scott Griffiths, leikmaður Luton Town, skaut í slá og Geoff Cameron skoraði úr næstu spyrnu Stoke. 

West Bromwich Albion vann 5-3 sigur á Port Vale í vítakeppni og slapp því með skrekkinn eins og Stoke.

Nathan Dyer, Matt Grimes og Marvin Emnes skoruðu fyrir Swansea í 3-0 sigri á York en Gylfi Þór Sigurðsson var hvíldur í leiknum.

Jermain Defoe skoraði þrennu og Jack Rodwell var með tvö mörk þegar Sunderland vann 6-3 sigur á Exeter. Duncan Watmore skoraði sjötta markið en staðan var 3-3 í hálfleik.

Crystal Palace þurfti framlengingu til að vinna Shrewsbury en Palace-liðið skoraði þrjú mörk í framlengingunni. Dwight Gayle jafnaði úr víti og þeir Glenn Murray, Lee Chung-yong og Wilfried Zaha Zaha skoruðu allir í framlengingunni.

Scott Sinclair skoraði þrennu fyrir Aston Villa sem vann 5-3 sigur á Notts County í framlengingu. Adama Traore og Joe Bennett skoruðu hin mörk Villa-liðsins.

Táningurinn Joe Dodoo skoraði þrennu fyrir Leicester í 4-1 útisigri á Bury en hinn ungi Dodoo lagði líka upp fjórða markið fyrir Andrej Kramaric.

Bournemouth gerði ellefu breytingar frá sigrinum á West Ham en vann engu að síðustu 4-0 sigur á Hartlepool. Junior Stanislas skoraði tvö mörk og lagði upp eitt fyrir Yann Kermorgant. Dan Gosling skoraði fjórða markið.

Florian Thauvin og Siem de Jong skoruðu á fyrstu átta mínútunum í 4-1 sigri Newcastle á Northampton. Florian Thauvin var í fyrsta sinn í byrjunarliði Newcastle og lagði upp mörk fyrir bæði Daryl Janmaat og Mike Williamson í seinni hálfleik.

Jóhann Berg Guðmundsson var hvíldur þegar Charlton vann 4-1 sigur á Peterborough á útivelli.



Úrslit í enska deildabikarnum í kvöld:

Aston Villa - Notts County    5-3 (Framlenging)

Birmingham - Gillingham    2-0

Burton - Middlesbrough    1-2 (Framlenging)

Bury - Leicester    1-4

Crystal Palace - Shrewsbury    4-1 (Framlenging)

Doncaster - Ipswich    1-4 (Framlenging)

Fulham - Sheff Utd    3-0

Hartlepool - Bournemouth    0-4

Hull - Rochdale    1-0

Luton - Stoke    1-1 (Stoke vann 8-7 í vítakeppni)

MK Dons - Cardiff    2-1 (Framlenging)

Newcastle - Northampton    4-1

Peterborough - Charlton    1-4

Portsmouth - Reading    1-2

Preston - Watford    1-0

QPR - Carlisle    1-2

Rotherham - Norwich    1-2

Sheff Wed - Oxford Utd    1-0

Sunderland - Exeter    6-3

Swansea - York    3-0

Walsall - Brighton    2-1

Wolves - Barnet    2-1

West Brom - Port Vale    0-0 (WBA vann 5-3 í vítakeppni)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×