Enski boltinn

Everton án fyrirliða síns næstu mánuðina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Jagielka liggur hér sárþjáður í grasinu.
Phil Jagielka liggur hér sárþjáður í grasinu. Vísir/Getty
Phil Jagielka, varnarmaður Everton og enska landsliðsins, verður frá næstu tvo mánuðina en hann meiddist í tapinu á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Jagielka meiddist á hné í leiknum eftir að hafa lent í samstuði við liðsfélaga sinn úr enska landsliðinu, Alex Oxlade-Chamberlain.

Phil Jagielka, sem er 33 ára gamall, mun ekki aðeins missa af leikjum Everton því hann verður heldur ekki með í vináttulandsleikjum Englendinga á móti Spáni og Frakklandi í næsta mánuði.

Roberto Martinez, knattspyrnustjóri Everton, leit þó á þessar fréttir sem „góðar" fréttir því óttast var í fyrstu að Phil Jagielka hefði slitið krossband og hefði þá verði frá út allt tímabili.

„Við bjuggumst við hinu versta eftir leikinn. Þetta er líklega eins lítið og þetta gat verið. Ég býst ekki við því að hann verði lengur frá en átta til níu vikur. Inn í þeim tíma er landsleikjahlé og hann missir því vonandi ekki af svo mörgum leikjum," sagði Roberto Martinez við BBC þegar hann var spurður út í meiðsli Jagielka.

Phil Jagielka gæti þó misst af allt að níu leikjum Everton allt fram að leik liðsins á móti Newcastle á öðrum degi jóla.

Phil Jagielka hefur spilað með Everton frá árinu 2007 þegar félagið keypti hann frá Sheffield United þar sem hann spilaði fyrstu sjö tímabil sín í meistaraflokki. Jagielka tók síðan við fyrirliðabandi Everton af  Phil Neville fyrir 2013-14 tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×