Fótbolti

Norræni varnarmúrinn hjá Krasnodar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnar Sigurðsson hefur staðið sig vel í upphafi tímabils.
Ragnar Sigurðsson hefur staðið sig vel í upphafi tímabils. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson og félagar hans í FC Krasnodar hafa byrjað vel í rússnesku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Liðið situr sem stendur í 5. sæti með átta stig eftir fjórar umferðir. Sterkur varnarleikur hefur verið lykillinn að þessu góða gengi Krasnodar, en liðið hefur aðeins fengið á sig eitt mark í leikjunum fjórum. Reyndar sluppu Krasnodar-menn vel gegn FK Rostov í gær, en Andrei Sinitsyn, markvörður liðsins, varði tvær vítaspyrnur í leiknum.

Ragnar Sigurðsson hefur leikið alla fjóra leikina í miðri vörn Krasnodar, við hlið Svíans Andreas Granqvist. Sá er reyndur kappi sem hefur leikið með Helsingborg, Wigan Athletic, Groningen og Genoa á ferlinum. Þá hefur Granqvist leikið 34 landsleiki og skorað tvö mörk fyrir sænska landsliðið.

Krasnodar hefur haldið hreinu gegn FC Rostov, Spartak Moskvu og Lokomotiv Moskvu, en eina markið sem liðið hefur fengið á sig kom gegn Sölva Geir Ottesen og félögum hans í FC Ural.

Sé litið á tölfræði Krasnodar samkvæmt heimasíðunni WhoScored, þá kemur í ljós að liðið stöðvar sóknir mótherjanna (e. interceptions) oftast allra liða í deildinni, eða 23 sinnum að meðaltali í leik. Þá á Krasnodar á 20,3 tæklingar að meðaltali í leik, sem er það sjötta mesta í deildinni, og liðið er einnig í sjötta sæti yfir fæst skot fengin á sig að meðaltali í leik (11,8).

Ragnar er einn af hæstu leikmönnum Krasnodar í einkunnagjöf WhoScored, en fréttaritarar síðunnar gefa leikmönnum einkunn sem er byggð á ýmsum tölfræðiþáttum.

Meðaltalseinkunn Ragnars er 7,27, en íslenski varnarmaðurinn er með 1,5 tæklingu, stöðvar þrjár sóknir og hreinsar boltann fjórum sinnum frá eigin marki að meðaltali í leik, auk þess sem hann kemst einu sinni fyrir skot andstæðinganna.

Granqvist félagi hans er með 7,17 að meðaltali í einkunn. Svíinn er með eina tæklingu, stöðvar 3,5 sóknir og er með 5,5 hreinsanir að meðaltali í leik.

Framundan eru tveir leikir hjá Ragnari og félögum gegn liðum frá höfuðborginni, Torpedo (24. ágúst) og Dinamo Moskvu (31. ágúst).


Tengdar fréttir

Ragnar og félagar héldu hreinu

Ragnar Sigurðsson og félagar í vörn FC Krasnodar héldu hreinu í kvöld þegar liðið vann FK Rostov.

Jafnt í Íslendingaslag í Rússlandi

FC Ural og FC Krasnodar skildu jöfn með einu marki gegn einu í Íslendingaslag í 2. umferð rússnesku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×