Demantamótin eru flottustu einstöku frjálsíþróttamót hvers árs þar sem aðeins þeim bestu er boðið en alls verða 14 mót í ár. Veislan hefst í Doha í dag en síðasta mótið verður í Brussel 5. september.
Mótafyrirkomulagið er þannig að þrír efstu keppendurnir í hverri grein fá stig og þau eru svo tvöfölduð á lokamótinu. Sá íþróttamaður sem fær flest stig í hverri grein stendur uppi sem sigurvegari. Einfalt.
Shelly-Ann Fraser-Pryce, jamaíska spretthlaupadrottningin, mætir til leiks í dag og keppir í 100 metra hlaupi en hún vann 100 og 200 metra hlaupin á HM í Mosvku í fyrra auk þess að vera hluti af jamaísku boðhlaupssveitinni sem vann 4x100 metra hlaupið. Þá er hún einnig ríkjandi Ólympíumeistari í 100 metra hlaupi.
Asbel Kiprop, heimsmeistari í 1.500 metra hlaupi, verður einnig í Doha í dag og sömu sögu má segja um nýsjálenska kúluvarparann ValerieAdams sem komist hefur í úrslit á 46 mótum í röð. Adams er besta kúluvarpskona heims í dag og er ríkjandi heims- og Ólympíumeistari.
Keppni í hástökki karla hefur sjaldan ef aldrei verið jafnspennandi og styttist í að 21 árs gamalt heimsmet Kúbverjans JaviersSotomayors upp á 2,45 metra verði slegið.
Mutaz Essa Barshim frá Barein, sem varð heimsmeistari innanhúss í Sopot fyrr á árinu, gerir sig líklegan til að bæta metið en hann á best 2,40 metra líkt og Kanadamaðurinn Derek Drouin. Þeir verða báðir á meðal keppenda í kvöld sem og rússneski Ólympíumeistarinn Ivan Ukhov.
Fyrsta Demantamótið hefst klukkan 16.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.


