Innlent

Skoða sameiginlegar verkfallsaðgerðir

Árdís Ósk Steinarsdóttir skrifar
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna.
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna. VÍSIR/GVA
„Almennt séð er afgerandi stuðningur við löglega boðaðar aðgerðir. Flestir félagsmenn eru sammála um að best sé að félagssambönd innan bandalagsins fari í sameiginlegar aðgerðir,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna (BHM), sem eru heildarsamtök háskólamenntaðra á vinnumarkaði. 

Guðlaug segir BHM vera að vinna í að móta næstu skref, ef vilji félagsmanna reynist sá að beita aðgerðum.

Undanfarna daga hafa félög starfstétta innan BHM kannað hug félagsmanna til verkfallsaðgerða vegna yfirstandandi kjaraviðræðna kennara við Háskóla Íslands. Um er að ræða forkönnun sem félög innan bandalagsins leggja fyrir félagsmenn sinnar starfstéttar. Þessar kannanir eru mislangt komnar. Til að mynda hefur verið lögð könnun fyrir félag bókasafns- og upplýsingafræðinga sem er eitt félagssambanda innan BHM og stendur til að leggja könnun fyrir Félag háskólakennara á Akureyri. 



Ef til þess kemur verður kosið innan félaganna um lögboðaðar aðgerðir í byrjun apríl.

„Markmiðið er að ná ásættanlegum samningum án harkalegra aðgerða,“ segir Guðlaug.

BHM hefur nú fundað með samninganefndum Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitafélaga í gær og í fyrradag. Í síðustu viku var fundað með samninganefnd ríkisins og sama dag með fjármálaráðherra.

Í gærmorgun fundaði bandalagið svo með félagsmönnum sínum til að meta framgang mála og móta næstu skref.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×