Innlent

Nýtt upplýsingakerfi Landsbjargar tekið í notkun

Bjarki Ármannsson skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir og Hörður Már Harðarson, forstjóri Landsbjargar, við fyrsta Safetravel-skjáinn í dag.
Ragnheiður Elín Árnadóttir og Hörður Már Harðarson, forstjóri Landsbjargar, við fyrsta Safetravel-skjáinn í dag. Vísir/Valli
Nýja upplýsingakerfið Safetravel var formlega tekið í notkun í dag og er því ætlað að auka upplýsingagjöf til ferðamanna á Íslandi og bæta þannig öryggi þeirra.

Kerfið er verkefni á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar en það felst í því að birta upplýsingar um færð og veður auk ýmiss konar ráðlegginga um góða ferðahegðun.

„Við töldum það tímabært að færa upplýsingarnar til ferðamanna,“ segir Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna ferðamanna hjá Landsbjörgu. Félagið hefur haldið úti vefsíðunni Safetravel undanfarin ár þar sem áþekkar upplýsingar er að finna.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, kveikti á fyrsta Safetravel-skjánum í dag hjá bensínstöð Olís í Norðlingaholti. Til stendur að Landsbjörg setji upp skjái á allt að þrjátíu eða fjörutíu helstu viðkomustöðum ferðamanna víðsvegar um landið á næstu þremur árum.

Upplýsingar á hverjum skjá fyrir sig verða staðbundnar og munu meðal annars sýna færð í nágrenninu í beinni útsendingu á vefmyndavélum.

„Það veitir ekki af þessu á Íslandi, þar sem aðstæður eru oft erfiðar,“ segir Jónas. „Við teljum þetta geta komið nokkur hundruð þúsund ferðamönnum að gagni á hverju ári.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×