Enski boltinn

Aron Einar ekki sá fyrsti til að spila fyrir Norðurlandabúa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Solskjær með treyju Cardiff.
Solskjær með treyju Cardiff.
Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær var í gær ráðinn nýr knattspyrnustjóri Arons Einars Gunnarssonar og félaga í Cardiff City í ensku úrvalsdeildinni. Solskjær horfði á Cardiff-liðið tapa fyrir Arsenal á nýársdag og tók síðan við liðinu í gær.

„Mig hefur ávallt dreymt um að gerast knattspyrnustjóri liðs í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Ole Gunnar Solskjær á blaðamannafundi en hann var búinn að skila þremur titlum á þremur árum sem þjálfari norska liðsins Molde.

Cardiff mætir Manchester United, gamla félaginu hans Solskjærs, á Old Trafford hinn 28. janúar en Solskjær leitaði til síns gamla stjóra, Sir Alex Fergusons, áður en hann tók ákvörðun um að taka tilboði malasíska eigandans, Vincents Tan.

Aron Einar Gunnarsson verður ekki fyrsti íslenski knattspyrnumaðurinn til að spila fyrir Norðurlandabúa í ensku úrvalsdeildinni því Hermann Hreiðarsson náði að spila fyrir tvo Norðurlandabúa.

Hermann spilaði fyrst sex leiki fyrir Svíann Tomas Brolin sem tók við liði Crystal Palace í lok 1997-98 tímabilsins. Hermann spilaði síðan 1999-2000 tímabilið með Wimbledon en knattspyrnustjóri liðsins þá leiktíðina var Norðmaðurinn Egil „Drillo“ Olsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×