Innlent

Píratar biðja um aðstoð vegna sparisjóðsskýrslunnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Daníel
Þingflokkur Pírata hefur beðið um aðstoð almennings vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Sparisjóðina, sem verður birt á morgun klukkan eitt. Skýrslan er um tvö þúsund síður að lengd og hafa þingmenn innan við sólarhring til að kynna sér efni skýrslunnar.

„Eitt af því sem við Píratar gerum er að reyna að tengja þjóðina við störf þingsins. Við erum alveg óhrædd við að leita álits og fá punkta,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.

Sökum þess hve skýrslan er löng eru áhugasamir beðnir um að senda starfsmönnum þingflokksins áhugaverða punkta eða hugleiðingar um efni skýrslunnar og hjálpa þingflokknum að ná utan um efni hennar áður en umræða um skýrsluna hefst.

„Í netheimum er til svolítið sem heitir Crowdsourcing. Það er verkfæri sem er um að gera að nýta til að fá ítarlega umfjöllun,“ segir Helgi.

„Ekki hjálpar til hvað við erum fá. Við erum þrjú og þetta er eitthvað sem við gerum, að leita álits annarra. Svo viljum við tengja almenning við það sem gengur og gerist á hinu svokallaða háa Alþingi,“ segir Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×