Menning

Kjallaraspjall um Sjálfstætt fólk

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Meðal frummælenda er Þorleifur Örn Arnarsson, leikstjóri uppfærslu Þjóðleikhússins á Sjálfstæðu fólki.
Meðal frummælenda er Þorleifur Örn Arnarsson, leikstjóri uppfærslu Þjóðleikhússins á Sjálfstæðu fólki. Vísir/Arnþór
Kjallaraspjall um Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness fer fram í Stúdentakjallaranum í Háskóla Íslands í dag frá klukkan 17 til 18.30. Tilefnið er uppsetning Þjóðleikhússins á Sjálfstæðu fólki í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar, sem er jólasýning leikhússins í ár.



Framsögumenn verða þau Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður, Símon Birgisson dramatúrgur og Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri. Stjórnandi umræðna verður Brynja Þorgeirsdóttir, sjónvarpskona og framhaldsnemi í bókmenntafræði.



Sjónum verður beint að aðlögun á skáldskap Laxness fyrir leikhús en einnig að bókmenntaverkinu sem slíku og hugmyndinni um sjálfstæði. Átökin á milli einangrunarhyggju og alþjóðahyggju verða tekin fyrir og hvernig persóna Bjarts í Sumarhúsum hefur verið notuð í ýmsum tilgangi í íslenskri rökræðu. Sem dæmi má nefna Bjart sem holdgervingu þeirra sem eru á móti Evrópusambandinu. Hvað er þetta frelsi og sjálfstæði sem Bjartur berst svo heitt fyrir?



Umræðurnar eru skipulagðar af Stúdentakjallaranum í samstarfi við Torfhildi, nemendafélag bókmenntafræðinema, Menningarfélagið, nemendafélag framhaldsnema í Íslensku og menningardeild og Þjóðleikhúsið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×