Varhugaverðar aðstæður hafa myndast á Vestfjörðum þar sem snjór og ísing hafa lagst á háspennulínur með þeim afleiðingum að sums staðar er hættulega stutt upp í þær. Guðlaugur Sigurgeirsson, deildarstjóri netreksturs hjá Landsneti, brýnir fyrir útivistarfólki og öðrum sem gætu verið á ferðinni að sýna aðgæslu.
„Fyrir þá sem eru á ferð er þetta stórhættulegt,“ segir Guðlaugur og bendir á að fólk á skíðum og snjósleðum geti hæglega rekist á línur og staura. „Línurnar eru mun lægri en venjulega og fólk gæti lent í því að sjá þær ekki.“
Enn er spenna á öllum línum á norðanverðum Vestfjörðum nema á Bolungarvíkurlínu 1, sem tengir Breiðadal og Bolungarvík, en hún liggur of nálægt jörðu. Jarðstrengur til Bolungarvíkur sér bænum fyrir rafmagni í millitíðinni.
Guðlaugur segir að ísing utan á línunum sé sums staðar allt að 20 sentímetrar í þvermál og þyngslum sem liggja á einangrunarkeðjum milli staura megi líkja við fólksjeppa.
„Við venjulegar aðstæður hanga kannski 200 kíló á þeim,“ segir Guðlaugur. „Við þetta veður getur sú þyngd tífaldast, orðið tvö og hálft tonn.“
„Fyrir þá sem eru á ferð er þetta stórhættulegt“
Bjarki Ármannsson skrifar
