Enski boltinn

Rooney hæstánægður með nýja samninginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rooney er hér með Ed Woodward, varaformanni stjórnar, og David Moyes, knattspyrnustjóra.
Rooney er hér með Ed Woodward, varaformanni stjórnar, og David Moyes, knattspyrnustjóra. Vísir/Getty
Wayne Rooney segist sannfærður um að það séu góðir tímar fram undan hjá Manchester United.

Hann skrifaði í dag undir nýjan samning við félagið sem gildir til ársins 2019 en enskir fjölmiðlar fullyrtu í dag að Rooney fái samkvæmt honum um 57 milljónir króna í vikulaun.

Rooney er 28 ára gamall og átti gamli samningur hans að renna út í lok næsta tímabils.

„Já, ég er mjög ánægður með að hafa skrifað undir nýjan langtímasamning við Manchester United,“ sagði hann í viðtali sem birtist á heimasíðu félagsins.

„Þetta er eitt stærsta félag heims og ég mun spila hér lengst af á mínum ferli. Ég hlakka til þess.“

„Ég er ánægður með að þetta sé allt frágengið því nú get ég einbeitt mér að fótboltanum.“

Enskir fjölmiðlar höfðu sumir fullyrt að Rooney hefði krafist þess að verða fyrirliði félagsins og áhrif á stefnu félagsins í leikmannakaupum.

„Það er auðvitað algjör fásinna. Viðræður um nýjan samning hafa tekið sinn tíma en það er eðlilegt. Það hefur mikið gengið á innan raða félagsins en viðræðurnar hafa verið jákvæðar frá fyrsta degi,“ sagði Rooney.

„Framtíð Manchester United er björt. Félagið er enn eitt það stærsta í heiminum og koma Juan Mata í janúar staðfestir það. Við getum enn fengið bestu leikmenn heims til liðs við okkur.“

Ítarlegra viðtal við Rooney má lesa á heimasíðu Manchester United.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×