Enski boltinn

Foster: Bilun að fólk vilji reka Mel | Ekki unnið leik í átta tilraunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Er Pepe Mel í vandræðum?
Er Pepe Mel í vandræðum? Vísir/Getty
„Þetta er ótrúlegt, ekki satt? Svona er fótboltinn orðinn. Þetta er brjálæði, algjör klikkun,“ sagði Ben Foster, markvörður WBA, eftir 3-0 tapið gegn Manchester United um helgina.

Markvörðurinn var að tala um þær sögusagnir að heitt væri undir knattspyrnustjóra liðsins, Spánverjanum Pepe Mel, sem tók við liðinu í byrjun janúar eftir að Steve Clarke var rekinn.

Það er kannski ekki alveg jafnklikkað og Foster vill meina að talað og skrifað sé um brottrekstur Spánverjans þó hann hafi aðeins verið rúma tvo mánuði í starfi.

Mel hefur nefnilega ekki enn tekist að stýra West Brom-liðinu til sigurs í ensku úrvalsdeildinni. Í þeim átta leikjum sem hann hefur verið á hliðarlínunni sem stjóri WBA hefur liðið gert fjögur jafntefli og tapað fjórum leikjum.

Þrátt fyrir þetta slæma gengi er liðið ekki í fallsæti en það er aðeins markatölunni að þakka. WBA er í 17. sæti með 25 stig, jafnmörg og Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff, og í bullandi fallbaráttu.

„Það virðist vera að allir nýir stjórar lendi samstundis í vandræðum nema þeir komist strax á sigurbraut. Leikmennirnir pæla ekkert í þessum sögusögnum um Pepe. Mér líkar mjög vel við hann og ég held það sama eigi við um hina strákana,“ sagði Ben Foster.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×