Innlent

„Kokkurinn sagðist ekki hafa tíma fyrir svona vitleysu“

Baldvin Þormóðsson skrifar
Veitingastaður VOX er staðsettur á Hilton Nordica hótelinu.
Veitingastaður VOX er staðsettur á Hilton Nordica hótelinu.
„Svona lítur árshátíðarréttur grænmetisætunnar út að mati Hilton - Vox veisluþjónustu,“ skrifar Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir við mynd sem hún setti á Facebook fyrr í dag.

Sæunn er grænmetisæta og situr meðal annars í stjórn samtaka grænmetisæta á Íslandi.

„Ég hringi vanalega nokkrum dögum fyrr á veitingastaðinn til þess að spyrja hvort þeir bjóði upp á einhverja rétti fyrir grænmetisætur,“ segir Sæunn í viðtali við Vísi en slíkt var tilfellið í þetta sinn. „Mér var sagt að það væri ekkert mál að útbúa slíka máltíð.“

Hins vegar þegar Sæunn var mætt á staðinn þá vissi ekkert af starfsfólkinu af símtalinu né hvernig ætti að taka á málinu.

„Mér var boðið upp á fjóra mismunandi kjötrétti áður en ég fékk síðan meðalstóran matardisk með kínakáli,“ segir Sæunn en manni hennar varð svo misboðið að hann lagði leið sína í eldhús VOX til þess að eiga orð við kokkinn sem hafði útbúið réttina.

„Þá sagðist kokkurinn ekki hafa tíma fyrir svona vitleysu, hann væri með fullan stað af fólki,“ segir Sæunn.

„Ef að mér hefði bara verið sagt í símann að grænmetisréttur væri ekki möguleiki þá hefði ég nú bara mætt södd,“ segir Sæunn, en eftir atvikið sendi hún kvörtunarbréf á veitingastaðinn sem henni hefur enn þann dag í dag, fimm dögum eftir atvikið, ekki borist svar við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×