Innlent

Verjandi Gísla Freys fékk gögnin afhent klukkan þrjú í gær

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Gísli Freyr fundaði með Hönnu Birnu í kjölfar þess að lögmaður hans fékk í hendurnar ný gögn frá ríkissaksóknara.
Gísli Freyr fundaði með Hönnu Birnu í kjölfar þess að lögmaður hans fékk í hendurnar ný gögn frá ríkissaksóknara. Vísir / GVA
Ný gögn í máli Gísla Freys Valdórssonar bárust verjanda hans, Ólafi Garðarssyni, um klukkan þrjú í gær. Gísli Freyr, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, játaði sök í lekamálinu í gær. Saksóknari telur þau sanna að Gísli Freyr hafi átt við hið umrædda minnisblað. 

„Ég er búinn að fá það í hendurnar, eða ég er búinn að fá ljósrit í hendurnar. Það verður lagt fram á eftir,“ segir Ólafur í samtali við Vísi í morgun. „Ég fékk það í gær. Rétt fyrir þrjú í gær.“ Réttað verður í málinu klukkan 9.15 í héraðsdómi í dag þar sem nýju gögnin verða formlega lögð fram.

Ólafur er ekki sammála því að þessi nýju gögn taki af allan vafa um að Gísli hafi lekið trúnaðargögnunum. „Nei það er langur vegur frá því en þetta styrkir málatilbúnað ákæruvaldsins,“ segir hann. „Það er mjög tæknilega eðlis þetta skjal.“

Gísli Freyr fundaði með Hönnu Birnu eftir að lögmaður hans hafði fengið gögnin í hendurnar. Á fundinum játaði hann brotið.

Engin vitni verða leidd fyrir dóminn líkt og til stóð vegna játningar Gísla. Meðal þeirra sem áttu að koma fyrir réttinn voru Hanna Birna og Þórey Vilhjálmsdóttir, hinn aðstoðarmaður ráðherra. Gísli Freyr hefur fullyrt að hvorug þeirra hafi vitað að hann hafi lekið trúnaðargögnunum.

„Ég get ekki lengur lifað í lygavef sem ég sjálfur ber ábyrgð á að hafa spunnið í kringum mig,“ sagði Gísli Freyr í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum í gærkvöldi.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.