Íslensku keppendurnir luku leik á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug í sundi í Doha í Katar í morgun. Hrafnhildur Lúthersdóttir setti glæsilegt Íslandsmet í sínu síðasta sundi.
Hrafnhildur varð 17. í 200 metra bringusundi kvenna á tímanum 2:22,69 mínútum sem er rúmlega sekúndu bæting á rétt þriggja mánaða Íslandsmeti hennar.
Davíð Hildiberg Aðalsteinsson varð 33. í 200 metra baksundi á tímanum 2:00,07 og Krsitinn Þórarinsson varð 40. á 2:03,17. Davíð bætti sig um tæplega 2 og hálfa sekúndu.
Daníel Hannes Pálsson bætti sig einnig en hann varð 41. í 200 metra flugsundi þegar hann kom í mark á 2:02,94 mínútum. Hann bætti sig um tæpa sekúndu.
Að lokum setti karlasveit Íslands glæsilegt Íslandsmet í 4x100 metra fjórsundi. Sveitin varð 18. á tímanum 3:43,16 mínútur. Sveitina skipuðu Davíð Hildiberg, Kristinn, Daníel og Kristófer Sigurðsson.
Eygló Ósk Gústafsdóttir náði bestum árangri íslensku keppendana í Doha þegar hún varð í 10. sæti í 200 metra baksundi. Alls féllu 8 Íslandsmet á mótinu. Fimm í einstaklingskeppnum og þrjú í boðsundum.
Hrafnhildur með glæsilegt Íslandsmet í 200 metra bringusundi
Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
