Eins dásamlegt og það er nú að vera fordómafullur fýluskarfur er alltaf gaman þegar einhver hefur svo á endanum vit fyrir manni. Góður drengur, afgreiðslumaður hljóðfæraverslunar hér í borg, tók í taumana eftir að ég lýsti frati á Rush í beinni útsendingu í útvarpi.
Þvoglumæltur á öldurhúsi skipaði hann mér að fara rakleiðis heim og hlusta á eina frægustu plötu sveitarinnar, Moving Pictures, sem ég gerði með semingi. Til að gera langa sögu stutta þá kunni ég ágætlega við plötuna, viðurkenndi ósigur, og renndi flestum plötum sveitarinnar í gegn í kjölfarið.

Þetta frábæra kanadíska tríó gleður mig á hverjum degi og ég vil að þú, lesandi góður, upplifir einnig þessa gleði. Það er í raun minn eini tilgangur með þessu trúboði.
En hvað verður það næst? Mun ég byrja að gyrða hljómsveitarbolina mína ofan í gallabuxurnar? Fá mér GSM-hulstur til að festa á beltið mitt? Þarf ég að byrja að nota frasa eins og: „Segjum það, kall“? Mun ég uppgötva töfra Genesis og Jethro Tull?
Nú þegar er ég byrjaður að hækka græjurnar mínar í botn „þegar hljómborðið kikkar inn“. Ég get ekki betur séð en að öllu sé lokið. Ég er orðinn faðir minn. Og þinn.