Enski boltinn

Arsenal náði ekki toppsætinu - markalaust jafntefli við United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Arsenal og Manchester United gerðu markalaust jafntefli í stórleik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni en Arsenal hefði komist í toppsæti deildarinnar með sigri.

Úrslitin eru mikil vonbrigði fyrir Arsenal sem tapaði illa fyrir Liverpool um síðustu helgi og þurfti á góðum úrslitum til að bæta stuðningsmönnum sínum þá sneypuför. Stuðningsmenn Arsenal voru heldur ekki sáttir og púuðu á sína menn eftir lokaflautið.

Arsenal hafði aðeins unnið einn af síðustu þrettán leikjum sínum á móti Manchester United í öllum keppnum og tókst ekki að breyta þeirri tölfræði í kvöld.

Liðin fengu færi til að skora en voru hvorug tilbúin að taka mikla áhættu í sínum leik. Þetta eru þó án vafa betri úrslit fyrir Manchester United en fyrir Arsenal sem er nú einu stigi á eftir toppliði Chelsea.

Leikurinn byrjaði frábærlega og þrjú góð færi litu dagsins ljós á upphafsmínútum leiksins. Það fyrsta fékk Manchester United-maðurinn Robin van Persie á 4. mínútu en hin tvö fengu Arsenal-mennirnir Jack Wilshere og Olivier Giroud.

Markið kom hinsvegar ekki og það var einmitt það sem að leikurinn þurfti. Leikurinn róaðist talvert eftir þessa frábæru byrjun og liðin voru ekki mikið að gefa færi á sér.

Laurent Koscielny var nálægt því að skora á 62. mínútu en Antonio Valencia bjargaði skalla hans á marklínunnin.

Robin van Persie var nálægt því að skora á 79. mínútu eftir samvinnu við Wayne Rooney en Wojciech Szczesny varði skalla hans frábærlega. Szczesny hafði líka varið vel frá sínum gamla félaga í fyrri hálfleiknum.

Arsenal fékk nokkur hálffæri á lokakafla leiksins en tókst ekki að skapa sér alvöru færi og liðin sættustu á markalaust jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×