Enski boltinn

Poyet: Allir vildu vera hetjan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gustavo Poyet.
Gustavo Poyet. Nordicphotos/Getty
Gustavo Poyet, knattspyrnustjóri Sunderland, var sár og svekktur með 1-0 tap sinna mann á heimavelli gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Gabriel Agbonlahor skoraði eina mark leiksins á 15. mínútu eftir mistök Lee Cattermole.

„Mistök sem þessi eiga ekki að geta gerst. Ástand vallarins er gott og rennsli boltans fínt,“ sagði Poyet sem var ánægður með spilamennsku sinna manna fram að markinu.

„Allt á sér þó sínar skýringar og það gæti verið að það verði erfiðara að komast úr þessari erfiðu stöðu en ég taldi,“ sagði Poyet en Sunderland situr á botni deildarinnar. Úrúgvæinn var ánægður með stuðning áhorfenda en ekki óþolinmæði þeirra.

„Það var nægur tími eftir en stuðningsmennirnir eru ekki vanir því að horfa á lið sitt senda boltann og hafa stjórn á leiknum.“

Poyet vill meina að andrúmsloftið í stúkunni hafi náð til leikmanna sinna sem hafi flýtt sér of mikið.

„Þeir vildu gera allt á einni mínútu. Allir vildu skora jöfnunarmarkið og vera hetjan. Þetta er hins vegar liðsíþrótt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×