Enski boltinn

Moyes: Áttum ekki skilið að lenda undir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
„Við spiluðum mjög vel. Það eina sem við getum gert er að spila vel og reyna að nýta færin sem við sköpum,“ sagði David Moyes eftir 2-1 tap Manchester United gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Skotinn mátti horfa upp á United tapa enn einum leiknum á heimavelli í vetur. Ljóst er að Old Trafford er ekki lengur það vígi sem það var. Moyes var þrátt fyrir allt ánægður með sína menn sem fengu færin til að jafna metin seint í leiknum. Allt kom fyrir ekki.

„Við áttum ekki skilið að lenda undir,“ sagði Moyes sem var ósáttur við spurningu blaðamanns hvað honum fyndist um dýfur Danny Welbeck og Adnan Januzaj í leiknum. Fannst honum hans menn sviknir um vítaspyrnu í leiknum og fullyrti að gula spjaldið sem Januzaj fékk hefði verið rangur dómur.

Aðspurður hvort United ætti enn möguleika á titlinum eða þyrfti að endurskoða markmið sín og stefna á eitt af fjórum efstu sætunum sagði Moyes:

„Við reynum að vinna næsta leik. Annað getum við ekki. Við vildum vera hærra í deildinni en sjáum hvað setur eftir næsta leik.“

Félagaskiptaglugginn er opinn út mánuðinn. Moyes reiknar ekki með því að nýta gluggann til að styrkja hópinn sinn.

„Ekki eftir frammistöðuna í dag. Leikmennirnir spiluðu mjög vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×