Enski boltinn

Gylfi talar vel um Brendan Rodgers

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luis Suarez (28 mörk) og Daniel Sturridge (20 mörk) eru tveir markahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar.
Luis Suarez (28 mörk) og Daniel Sturridge (20 mörk) eru tveir markahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar. fréttablaðið/getty
Gylfi Þór Sigurðsson segir að framganga þeirra Luis Suarez og Daniels Sturridge sé lykilatriði í velgengni Liverpool í vetur. Gylfi, sem leikur með Tottenham, sagði þetta í samtali við vefmiðilinn London24.com í gær.

„Mörkin sem þeir hafa skorað og leikstíll þeirra hefur fært liðinu mikið sjálfstraust,“ sagði Gylfi en liðin eigast við á Anfield á sunnudag. Hann hrósaði einnig knattspyrnustjóranum Brendan Rodgers, sem Gylfi starfaði með hjá Swansea og Reading á sínum tíma.

„Handbragð Rodgers er á liðinu. Liðið er gríðarlega sterkt, bæði í vörn og sókn, eins og það hefur verið að spila að undanförnu,“ segir Gylfi.

Liverpool vann 5-0 sigur á Tottenham á White Hart Lane fyrr í vetur og Gylfi vill bæta fyrir það. „Við viljum vinna hvern leik og það á sérstaklega vel við núna. Okkar takmark er að fá eins mörg stig og við getum og væri mikilvægt að ná minnst einu stigi – ef ekki öllum þremur.“

Gylfi skoraði sigurmark sinna manna gegn Southampton um helgina og fær vonandi tækifæri í byrjunarliðinu á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×