Fótbolti

Kona í keppni við Van Persie, Zlatan og Diego Costa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephanie Roche, til hægri, í leik með írska landsliðinu.
Stephanie Roche, til hægri, í leik með írska landsliðinu. Vísir/Getty
Zlatan Ibrahimovic, Robin van Persie, Diego Costa og James Rodríguez eru fjórir af frægustu knattspyrnumönnum heims og þeir skoruðu allir frábær mörk á síðasta ári. Kapparnir keppa um flottasta mark ársins hjá FIFA en þeir fá samkeppni úr óvæntri átt.

Írska landsliðskonan Stephanie Roche skoraði magnað mark á árinu og það mark er einnig tilnefnt í ár. Markið skoraði Roche í leik með Peamount United á móti Wexford Youths sem eru ekki beint frægustu fótboltafélög heimsins.

Upptaka með marki Stephanie Roche fór eins og eldur um sinu um vefinn og eftir að myndbandið hafi fengið meira en þrjár milljónir spilanir á Youtube þá ákvað FIFA að tilefna það fyrir kjörið á marki ársins. Það er hægt að sjá markið hennar hér fyrir neðan.

Þetta er líka stórkostlegt mark. Stephanie Roche fékk boltann fyrir utan teig og með bakið í markið. Hún tók við boltanum lyfti honum yfir höfuð sér með annarri snertingu og afgreiddi boltann síðan viðstöðulaust í markið.

„Ég hef fengið ótrúleg viðbrögð við þessu marki. Athyglin sem markið er að fá hefur líka hjálpað að vekja meiri athygli á kvennafótboltanum sem ég er mjög ánægð með," sagði Stephanie Roche í viðtali við Guardian.

Það er hægt að kjósa um besta markið á FIFA-síðunni. Til greina koma mörk með Tim Cahill, Diego Costa, Marco Fabian, Zlatan Ibrahimovic, Pajtim Kasami, Stephanie Roche, James Rodriguez, Camilo Sanvezzo, Hisato Sato og Robin van Persie. 

Stephanie Roche spilar ekki lengur með Peamount United því hún er núna leikmaður með franska liðinu Albi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×