Innlent

Skilur konur sem fara út í vændi

Hulda Valdís Önundardóttir, móðir langveiks drengs, segist skilja konur sem fara út í vændi en hún hefur ekki fengið laun síðan í desember. Þá tók hún leyfi frá vinnu og á meðan þarf fjölskyldan að reiða sig á 190 þúsund krónur á mánuði en það eru útborguð laun fjölskylduföðursins. Þetta kom fram í sjónvarpsþættinum Ísland í dag á Stöð 2 í kvöld.

Hulda Valdís er móðir Arnars Pálma Eiríkssonar, tveggja og hálfs árs drengs, en hann hefur glímt við ýmis veikindi frá fæðingu. Þegar Arnar litli var rúmlega ársgamall fór að bera á blæðingum í hægðum hans og þá kom í ljós að hann var með sjaldgæfan sjúkdóm. Hluti af ristli hans var fjarlægður vegna góðkynja blóðæxlis sem var orðið það stórt að það stíflaði ristilinn. Síðan þá hefur hann undirgengist fjölda aðgerða og nú síðast á dögunum en ekki hefur tekist að stöðva blæðinguna að fullu.  Fjölskyldan býr í Neskaupsstað og þarf reglulega að koma í bæinn vegna veikindanna.

„Þetta er staðan hjá okkur í dag, það eru bara fleiri ferðir suður, fleiri rannsóknir og það þarf að fylgjast með honum.”

Ferðirnar í bæinn hafa verið þrjár á þessu ári og koma til með að verða fleiri. Hulda Valdís segist ekki hafa fengið neina af þeim greiddar. Það sé sérstaklega erfitt þar sem hún hafi ekkert geta unnið síðustu mánuði vegna veikinda Arnars Pálma og tekjur eiginmannsins hafa skerst.

„Þær hjá sjúkratryggingunum vilja meina að við eigum bara rétt á tveimur ferðum á ári en við erum að koma suður til að hitta sérfræðing. Við erum ekki að koma suður til að fara á djammið. Við eigum að fá þessar ferðir greiddar en það er skiljanlegt að það sé erfitt að fá þetta því það er fullt af fólki að svíkja kerfið. Þetta bitnar á þeim sem ekki eru að því.”

„Ég skil konur sem fara út í vændi en ég hef ekki  haft nein laun frá því um mánaðamótin nóvember/desember. Þetta er rosalega erfitt og alveg ömurlegt.”

Hulda segir að ekki væri mögulegt fyrir fjölskylduna að flytja til Reykjavíkur og vera nær spítalaþjónustu þar sem leiguverð á höfuðborgarsvæðinu sé of hátt.

„Við leigjum á 60 þúsund krónur á mánuði og við værum örugglega bara á götunni. Við höfum ekki getað borgað leiguna undanfarna mánuði. Foreldrar mínir hafa algjörlega séð um það.”

Tryggingastofnun ríkisins greiðir út foreldragreiðslur til foreldra langveikra barna sem þurfa að leggja niður störf. Hulda Valdís fékk synjun þegar hún sótti um greiðslurnar og fékk þau svör að Arnar Pálmi falli ekki inn í þann ramma sem þar er settur. „Hann er ekki með krabbamein, hann er ekki með hrörnunarsjúkdóm, hann er ekki fjölfatlaður og þar með fellur hann ekki inn í þennan ramma. Hann er samt með sjúkdóm sem  reglulega þarf að fylgjast með.” Segir Hulda Valdís. 

„Þetta barn þarf umönnun og ég skil ekki afhverju þeir sjá það ekki. Þetta er eins með mann sem missir fótinn og þarf að sanna að fóturinn hafi ekki vaxið á hann aftur. Þetta er bara fáránlegt kerfi og það þarf að laga þetta til”.

Hulda Valdís segir að það myndi muna miklu ef foreldragreiðslurnar færu í gegn.

„Þá kæmi það bara eins og laun hjá mér. Þá gætum við allavega borgað leigu. Þó það væri ekki nema bara leigu”.

Velunnarar fjölskyldunnar stóðu að söfnun fyrir fjölskylduna þar sem þrjú hundruð þúsund krónur söfnuðust. Hulda Valdís segist hafa náð að borga yfirdráttarheimildina og er gríðarlega þakklát þeim sem lögðu söfnuninni lið.

Styrktarreikningurinn er ennþá opinn fyrir þá sem vilja leggja fjölskyldunni lið. 1106-05-400765 og kt: 140983-3499.

„Ég er stundum komin að því að gefast upp, nenni þessu ekki, nenni ekki að standa í þessu. Auðvitað er ekki í boði að gefast upp.” Hulda Valdís vonast eftir því að Arnar Pálmi nái á endanum fullum bata og geti lifað eðlilegu lífi. Hún vonast einnig eftir því að geta sjálf farið út á vinnumarkaðinn sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×