Innlent

Lagabreytinga þörf ef læknar eiga að geta vísað á kannabis

Bjarki Ármannsson skrifar
Heilbrigðisráðherra hefur svarað fyrirspurn um heimild lækna til að ávísa á kannabis.
Heilbrigðisráðherra hefur svarað fyrirspurn um heimild lækna til að ávísa á kannabis. Vísir
Lagabreytinga er þörf, eigi læknum að vera heimilt að ávísa á kannabisplöntu í lækningaskyni. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn þingmanns Pírata.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, lagði fram fyrirspurn á þingi í síðasta mánuði varðandi það hvort heilbrigðisráðherra eða önnur heilbrigðisyfirvöld geti heimilað læknum að ávísa kannabisefnum í lækningaskyni. Ef svo sé ekki, hvaða lögum þyrfti þá að breyta.

Það kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra að þegar sé til lyf með markaðsleyfi hér á landi sem inniheldur kannabis. Það er lyfið Sativex, sem er ætlað að draga úr einkennum vegna heila- og mænusiggs. Sativex hefur verið heimilað af Lyfjastofnun og geta læknar á Íslandi því ávísað á það.

Hins vegar telur ráðherra ekki að læknar geti ávísað á sjálfa kannabis-plöntuna í lækningaskyni. Hægt sé að veita undanþágu frá lagaákvæðum um vörslu og meðferð bannaðra ávana- og fíkniefna þegar sérstaklega stendur á. Ávísun læknis á kannabis teljist ekki rúmast innan þessarar þröngu undanþáguheimildar og því sé lagabreytinga þörf, ef læknum á að vera heimilt að gera svo.

Reglulega sprettur upp umræða um hvort heimila eigi neyslu kannabisefna en mörg erlend ríki hafa farið þá leið að leyfa neyslu kannabisefna í lækningaskyni. Síðustu mánuði hafa svo nokkur ríki Bandaríkjanna heimilað frjálsa notkun á kannabisefnum. Kristján Þór hefur sjálfur sagt að breytinga sé þörf í fíkniefnastefnu okkar Íslendinga og að skoða ætti afglæpavæðingu fíkniefna á borð við kannabis.

Tengdar fréttir

Kannabis lögleitt í tveimur ríkjum Bandaríkjanna

Enn á eftir að telja atkvæði í Alaska en líklegt þykir að lögleiðing verði samþykkt þar. Lögleiðingu var hafnað í Flórída þrátt fyrir að 57 prósent kjósenda sögðu já.

Skiptar skoðanir um kannabis: Segja vísbendingar um tengsl milli kannabiss og geðrofs

„Á meðan kannabis er selt á svörtum markaði er aðgengi ungmenna óheft að efninu. Ef það væri löglegt væri mun auðveldara að fylgjast með því," segir Björgvin Mýrdal, meðlimur Snarrótarinnar. Vísbendingar séu um að tengsl séu á milli kannabisnotkunar og geðrofs að því er segir í fræðigrein sem birtist í Læknablaðinu í morgun.

Vill að yfirvöld taki kannabis til skoðunar

Kristín Ingólfsdóttir, lyfjafræðiprófessor og rektor Háskóla Íslands, telur að heilbrigðisyfirvöld eigi að skoða í fullri alvöru að leyfa kannabis í lækningaskyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×