Íslenski boltinn

Freyr: Þetta var til skammar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Freyr var ekki sáttur með mótherjana í dag.
Freyr var ekki sáttur með mótherjana í dag. Vísir/Valli
„Þetta var eins og ég vildi hafa þetta. Þær áttu ekki að fá að ógna markinu okkar neitt og það heppnaðist," sagði Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandslið Íslands, eftir 3-0 sigur Íslands gegn Ísrael.

„Mér fannst við geta spilað betur. Sendingageta liðsins er meiri en þessi. Við vorum með ofboðslega mikið af feilsendingum og við fengum tækifæri til að ganga frá þessum leik jafnvel í fyrri hálfleik."

„Ég var aldrei hræddur um að tapa þessum leik eða missa hann niður í jafntefli, en ég vildi bara fá betri ákvarðanir en heilt yfir margt ágætt."

„Við töluðum um það að við þyrftum að taka betri ákvarðanir á þeirra sóknarhelming. Ég er ósáttur við of mikið af sendingum sem fóru ekki á bláa treyju, en mörkin þrjú voru fín," sem var ánægður með innkomu varamannana.

„Þetta voru frábærar innkomur hjá Sigrúnu, Guðmundu og Gunnhildi sérstaklega hjá Sigrúni. Hún var að spila sinn fyrsta leik og mér fannst hún frábær."

Ísraelska liðið henti sér niður hvað eftir annað og tafði leikinn í tíma og ótíma. Freyr var sammála ofanrituðum að þetta var afskaplega leiðinleg sjón og einfaldlega til skammar.

„Ég var líka að láta það fara í taugarnar á mér. Þetta er óþolandi. Þetta er í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Þetta er bara til skammar og svona framkoma er ekki kvennaknattspyrnunni til framdráttar. Það fannst öllum þetta leiðinlegt og ég vil ekki sjá þetta," sagði Freyr og hélt áfram.

„Dómarinn á að taka betur á þessu. Dómarinn var bara einhver fígúra og mér fannst hann taka voðalega illa á þessu."

Hvernig leggur Freyr leikinn upp gegn Serbíu?

„Við reynum að skerpa á ákveðnum hlutum fyrir leikinn á miðvikudaginn og fara yfir afhverju þetta var svona. Annars höldum við bara áfram að vaxa sem lið og vinna í því sem við erum að gera," sagði Freyr við fjölmiðla í leikslok.


Tengdar fréttir

Skil sátt við landsliðið

Þóra B. Helgadóttir verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu gegn Ísrael í dag og gegn Serbíu á miðvikudaginn en það verða síðustu landsleikir hennar. Þóra gerir ráð fyrir að leggja hanskana á hilluna í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×