Erlent

423 fallið í Úkraínu á síðustu mánuðum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/AFP
Sameinuðu þjóðirnar áætla að 423 hafi látið lífið í Austur-Úkraínu á undanförnum tveimur mánuðum en upplýsingar um mannfallið voru kynntar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag.



Upplýsingarnar eru sagðar byggja á opinberum gögnum og taka bæði til almennra borgara og stríðandi fylkinga frá 15. apríl til 20.júní.

Ivan Simonovic, erindreki Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum, lýsti ánægju sinni með nýja friðaráætlun Pórósjenkó forseta Úkraínu, og sagði hana skref í rétta átt. Hann dró þó upp dökka mynd af átökum stríðandi fylkinga í austurhluta landsins milli aðskilnaðarsinna og þeirra sem enn eru hliðhollir stjórnvöldum í Kænugarði.

Vopnaflutningar til Austur-Úkraínu hafi aukist á tímabilinu sem og liðsöfnuður. Talið er að yfir 46 þúsund manns hafi hrakist frá heimilum sínum í austanverðri Úkraínu, þar af 11.500 á Krímskaga. Fjöldi Úkraínumanna sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín hefur tvöfaldast á liðnum vikum, mannshvörf eru tíð, valdbeiting stjórnvalda færist í aukana og öryggi blaðamanna fer hríðversnandi.

Ivan Simonovic sagði einnig að glæpir og mannréttindabrot væru að færast í vöxt og ítrekaði að innviðir samfélagsins væru margir hverjir að hruni komnir. Í borginni Slovyansk í austurhluta landsins hafi til að mynda ekki verið rennandi vatn í viku, 90 prósent borgarinnar hefur ekki aðgang að rafmagni og símasamband sé lítið sem ekkert.

Ivan Simonovic lýsti því þó yfir að hann væri vongóður um að fyrirhugað vopnahlé sem kynnt var í gær gæti orðið til þess að vinna bug á slæmu ástandi mannréttindamála í landinu.


Tengdar fréttir

Skrúfað fyrir gas til Úkraínu

Óttast er að deilan á milli Úkraínu og Rússlands komi til með að hafa áhrif á önnur lönd í Vestur-Evrópu.

Stjórnvöld í Úkraínu endurheimta Mariupol

Innanríkisráðherra landsins, Arseníj Avakoff, sagði í gær að öryggissveitir ríkisstjórnarinnar hefðu nú fulla stjórn á höfuðvígum aðskilnaðarsinna í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×