Sport

Cummings ekki síðri bardagamaður en LaFlare

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnar Nelson mætir nú Zak Cummings í Dyflinni.
Gunnar Nelson mætir nú Zak Cummings í Dyflinni. Vísir/Getty
„Það var haft samband við okkur seint í gærkvöldi og við látnir vita að Ryan LaFlare hafi meitt sig á hné og þurfti að draga sig út úr bardaganum,“ segir Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður bardagakappans GunnarsNelson.

Eins og Vísir greindi frá fyrr í dag hefur Gunnar fengið nýjan mótherja á UFC-bardagakvöldinu í Dyflinni 19. júlí. Ryan LaFlare þurfti að hætta við og í staðinn mætir Gunnar öðrum Bandaríkjamanni, Zak Cummings.

„Zak er glímumaður eins og Ryan og ósigraður í UFC þar sem hann hefur barist tvisvar. Hann er ekki jafnhátt skrifaður og LaFlare en alls ekki síðri bardagamaður,“ segir Haraldur.

Ryan LaFlare hefur barist ellefu sinnum í blönduðum bardagalistum, MMA, og unnið alla bardagana, þar af fjóra í UFC (alla á dómaraúrskurði).

Zak Cummings er öllu reyndari þrátt fyrir að vera árinu yngri en LaFlare, 29 ára. Hann á að baki 20 bardaga í MMA (17-3), þar af tvo í UFC. Annan vann hann á dómaraúrskurði en hinn með hengingu í fyrstu lotu.

Cummings hengdi Benny Alloway í bardaga þeirra á UFC-kvöldi í fyrra en LaFlare hefur einnig barist við Alloway og kláraði hann á dómaraúrskurði.

„Við hefðum væntanlega getað hafnað bardaganum en það er engin ástæða til þess. Zak er verðugur andstæðingur þó svo það hefði verið gaman að berjast við LaFlare. Zak hefur unnið 17 bardaga og náði á sínum tíma að vinna tíu bardaga í röð. Hann er mun reyndari andstæðingur og hefur rotað fleiri,“ segir Haraldur.

Það er ekki óalgengt að bardagamenn dragi sig úr keppni vegna meiðsla eins og Gunnar þekkir sjálfur of vel. Bæði hefur hann lent í því að skipt hefur verið 2-3 sinnum um andstæðing og þá hefur hann sjálfur þurft að hætta við bardaga vegna meiðsla.

„Þetta er eins og Gunnar hefur alltaf sagt, það er ekkert sniðugt að æfa fyrir einhvern sérstakan andstæðing. Maður veit aldrei á móti hverjum maður berst á endanum. Þú gæti verið að æfa fyrir bardaga á móti glímukappa en endar á að mæta einhverjum boxara,“ segir Haraldur Dean Nelson.

Bardagi Gunnars Nelson í Dyflinni 19. júlí verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×