Enski boltinn

Enskir miðlar: Moyes verður rekinn frá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Moyes.
David Moyes. Vísir/Getty
Enskir fjölmiðlar hafa slegið því upp í dag að David Moyes verði rekinn sem knattspyrnustjóri Manchester United en það hefur gengið skelfilega á fyrsta ári hans á Old Trafford.

Manchester United tapaði sínum ellefta deildarleik á tímabilinu í gær og hefur aðeins náð í 6 af 36 mögulegum stigum á móti sex efstu liðum deildarinnar. Moyes hefur ekki lengur trú leikmanna í klefanum og stjórnin hefur gefist upp á honum líka samkvæmt nýjustu fréttum.

United-liðið situr nú í sjöunda sæti og á ekki lengur tölfræðilega möguleika á því að ná Meistaradeildarsæti en næsta tímabil verður þar með það fyrsta í 19 ár þar sem Manchester United verður ekki í Meistaradeildinni.

Í mörgum enskum miðlum er greint frá því að tapið á móti Everton í gær hafi verið kornið sem fyllti mælinn hjá Glazer-fjölskyldunni. Knattspyrnustjóri United eigi að fá 200 milljónir punda í nýja leikmenn í sumar og að Glazer-fjölskyldan treysti hreinlega ekki Moyes fyrir þessum mikla peningi.

Manchester United hefur farið frá því að vinna Englandsmeistaratitilinn með 11 stigum á síðasta ári Sir Alex Ferguson á Old Trafford í versta árangur félagsins frá 1990. Ekkert hefur heldur gengið hjá félaginu í öðrum keppnum.

David Moyes fékk sex ára samning þegar hann tók við liði Manchester United síðasta sumar en uppsagnarákvæði gefur United færi á að þurfa ekki að borga upp allan samninginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×