Innlent

Lög á verkfall líklega kynnt ríkisstjórninni í dag

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/stefán
Ríkisstjórnarfundur hófst í Stjórnarráðshúsinu um klukkan hálftíu í morgun. Heimildir fréttastofu herma að á fundinum verði kynnt lög á yfirvofandi allsherjarverkfall flugmálastarfsmanna sem hefst á miðnætti að öllu óbreyttu. Þó er ekki talið útilokað að boðað verði til auka ríkisstjórnarfundar síðar í dag þar sem málið verður rætt. Sömu heimildir herma að lögin verði þó ekki lögð fyrir Alþingi fyrr en í fyrramálið og þá væntanlega afgreidd samdægurs.

Kjaraviðræður flugvallastarfsmanna við Isavia eru komnar í algjöran hnút. Tími skæruverkfalla er liðinn og bendir allt til þess að allsherjarverkfall muni skella á í nótt. Deilendur sátu við samningaborðið fram eftir nóttu og lauk fundi þeirra, án árangurs, klukkan sjö í morgun. Komi til verkfalls á morgun munu flugsamgöngur til og frá Íslandi lamast.

Kristján Jóhannesson, formaður félags flugmálastarfsmanna, segir að flugmálastarfsmenn hafi gefið út aðgerðaráætlun fyrir nokkrum vikum og síðan þá farið í þrjú skammtímaverkföll og nú sé komið að boðuðu allsherjarverkfalli, þar sem samningar hafa ekki tekist.

„Við höfum ekki séð ástæðu til þess að afboða það eða fresta því,“ sagði Kristján í Bítinu á Bylgjunni í dag. Þá segir hann að búið sé að slíta viðræðunum í bili en sennilega verði aftur sest við samningaborðið í dag.

Fyrsta apríl setti ríkisstjórnin lög á kjaradeilu undirmanna á Herjólfi og voru þau lög afgreidd samdægurs á þingi.


Tengdar fréttir

Lagasetning leysir ekki deiluna

Flugmálastarfsmenn um land allt felldu niður störf í morgun í fimm klukkustundir. Tæp vika er í að allsherjarverkfall skelli á og engin lausn virðist í sjónmáli. Ríkisstjórn hefur ekki rætt hugsanlega lagasetningu á verkfallið.

Flugvallarstarfsmenn með hálfa milljón á mánuði

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að flugvallarstarfsmenn séu með um hálfa milljón í mánaðarlaun. Hann segir þá krefjast 26 prósenta hækkunar á launum sem komi ekki til greina að semja um.

Klukkan tifar á allsherjarverkfall

Úrslitatilraun er nú gerð til að ná samningum við flugvallarstarfsmenn áður en ótímabundið verkfall þeirra hefst aðfararnótt miðvikudags.

Verkfall flugvallarstarfsmanna skellur á í nótt

Fimm tíma skæruverkfall flugvallarstarfsmanna skellur á snemma í fyrramálið með tilheyrandi töfum á millilandaflugi en þetta staðfesti Kristján Jóhannsson formaður Félags flugmálastarfsmanna í samtali við fréttastofu í kvöld.

Lög líklega sett á verkfall

Dósent við HÍ segir líkur benda til að lög verði sett á verkfall flugvallarstarfsmanna. Lögmaður segir ýmis rök lúta að því að flugsamgöngur til og frá landinu varði almannaheill. Því sé heimilt að banna verkfall með lögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×