Fótbolti

Pele segir Neymar dýfa sér of mikið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Pele hefur viðurkennt að landi sinn Neymar stundi það of mikið að fiska brot á andstæðinga sína með leikaraskap.

Pele hefur lengi verið mikill stuðningsmaður Neymar og sagt að hann yrði senn besti knattspyrnumaður heims. Hann sagði í viðtali við ESPN í gær að Neymar hefði þó unnið í þessum málum eftir að hann kom til Barcelona síðasta sumar.

„Já, hann var í vandræðum með þetta líka í Santos,“ sagði hann. „Ég held að hann sé að reyna að fiska brot og skapa aðstæður sem eru ekki til staðar. En hann hefur bætt sig mikið í Evrópu því þar eru þessi mál allt öðruvísi.“

Diego Simeone, stjóri Atletico Madrid, gagnrýndi Neymar eftir leikinn gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu fyrr í vikunni og sagði Brasilíumanninn falla of auðveldlega í grasið.

En Pele segir að Neymar sé enn að bæta sig. „Það var frábært að fá hann til Barcelona því fótboltinn er harkalegri og erfiðari í Evrópu. Það er gott fyrir brasilíska landsliðið að hann fái að vaxa og dafna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×